Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér tölum við inn í nóttina. Ég er búinn að vera að fjalla um mannréttindasáttmála Evrópu og nú síðast 14. gr. sem er um bann við mismunun. Ég ætla ekki að fara í gegnum fleiri greinar í sjálfum mannréttindasáttmálanum en fyrir þá sem hafa gaman af slíku eru greinarnar 59 talsins. Það er hins vegar þannig að við svona samninga eru oft gerðir svokallaðir samningsviðaukar og hefur Ísland samþykkt nokkra slíka. Samningsviðaukar 1–3 komu á afmælisdaginn minn, 20. mars 1952, ég var reyndar ekki fæddur þá, og síðan komu nokkrir aðrir; sá 4. kom 16. september 1963, sá 6. 28. apríl 1983, sá 7. 22. nóvember 1984 og sá 13. 3. maí 2002. Eins og sést hafa ríki Evrópu bætt þessum viðaukum við samninginn og Ísland hefur alla vega ákveðið að samþykkja nokkra slíka.

Mig langar að fara næst yfir í grein sem er í samningsviðauka 4 þar sem tilteknum öðrum mannréttindum er bætt við. Þar, í 3. gr., er einmitt fjallað um mál sem kom til kasta Alþingis hér á tímum heimsfaraldurs þegar frumvarp um loftferðir hefði getað orsakað það að íslenskum ríkisborgara yrði ekki leyft að koma til landsins, nokkuð sem stjórnarskráin talar um. En 3. gr. í þessum samningsviðauka fjallar einmitt um þetta og þar stendur í 1. mgr, með leyfi forseta:

„Eigi má vísa nokkrum manni úr landi þess ríkis sem hann er þegn í, hvort heldur sem einstaklingi eða samkvæmt ráðstöfun sem beinist gegn hópi manna.“

Og í 2. mgr. segir: „Eigi má banna nokkrum manni að koma til þess ríkis sem hann er þegn í.“

4. gr. er dálítið athyglisverð og ég velti fyrir mér hvort ákveðin framkvæmd sem hefur tíðkast hjá Útlendingastofnun brjóti í rauninni í bága við þessa 4. gr., en hún er stutt og laggóð og er um bann við hópbrottvísun útlendinga, með leyfi forseta: „Bannað er að gera hópa útlendinga landræka.“

Nú er ég ekki sérfræðingur í lögfræði eða mannréttindum en ég hefði haldið að þetta stoppaði hópbrottvísanirnar sem Útlendingastofnun virðist hafa voða gaman af því að stunda, að leigja flugvélar, fá fullt af lögreglumönnum, senda þá eitthvert í nokkra daga og svo koma þeir aftur allir brúnir — nei, ég segi svona.

Frú forseti. Ég á eftir að fjalla um samningsviðauka 7, en hann fjallar einmitt dálítið um brottvísun útlendinga, og óska því eftir að komast aftur á mælendaskrá.