132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:26]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að taka undir að það er margt í þessu frumvarpi sem er athyglisvert og býsna jákvætt og nauðsynlegt. Það vekur athygli þar sem hér er um heildarendurskoðun á lögum um háskóla að ræða að ekki skuli vera lögð fram samhliða sérlög um ríkisháskóla eins og boðað er í greinargerð að gert muni verða síðar, því það er augljóst mál að ríkisháskólarnir hljóta að tengjast þessari löggjöf á margan hátt. Það vekur t.d. furðu að sagt er að sett verði sérlög og ákveðnar reglur varðandi ríkisháskólana um gjaldtöku, þ.e. þá ríkisháskóla sem heyra undir hæstv. menntamálaráðherra.

Það er hvergi minnst á aðra ríkisháskóla sem heyra undir aðra ráðherra. Það er rétt að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hverju það sæti og hvort það hafi ekki verið rætt að allir háskólar landsins heyri undir einn og sama ráðherra, þ.e. hæstv. menntamálaráðherra, eins og hlýtur að teljast eðlilegt. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir hæstv. ráðherra að hafa ekki náð því fram við þessa heildarendurskoðun að verða yfirmaður allra háskóla og geta látið sömu reglur gilda um þá alla.