132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni athyglisverðar ábendingar. Já, þetta frumvarp mun ryðja ákveðnum hindrunum úr vegi. Á alþjóðavísu er verið að herða kröfur til háskóla, til gæðamála og til gæða kennslu. Menn þurfa að hafa gegnsæi til að átta sig á hvað felst í viðkomandi prófgráðu, hvort sem það er í grunnnámi, mastersnámi eða í doktorsnámi. Við sjáum sem betur fer fram á aukið samstarf háskóla hér innan lands sem og við erlenda háskóla. Ég tel mikilvægt í ljósi þeirrar þróunar að við reynum að ryðja burt öllum hindrunum sem kunna að vera í vegi fyrir því að það samstarf styrkist og eflist. Þess vegna skipta þessi ákvæði í frumvarpinu máli, þeim er ætlað að efla samstarf og auðvelda nemendum að velja það nám sem þeir kjósa hverju sinni.