132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:40]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er margt sem kemur upp í hugann núna þegar við ræðum frumvarp til laga um háskóla, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram á Íslandi á síðustu missirum um stöðu háskólanna og þess veruleika sem háskólarnir, og sérstaklega opinberu háskólarnir, búa við.

Það má segja að rekstur skólanna sé í járnum. Margar úttektir á síðustu árum hafa slegið striki undir það og dregið mjög sterkt fram. Í fyrra var gerð úttekt á vegum Evrópustofnunar sem leiddi í ljós að Háskóli Íslands bjó við lægst opinber framlög allra sambærilegra háskóla í Evrópu, aðeins einn háskóli var verr staddur en það var háskólinn í Króatíu. Þá kom fyrir tíu mánuðum síðan úttekt frá Ríkisendurskoðun þar sem niðurstaðan var mjög afdráttarlaus. Í niðurstöðum skýrslunnar frá Ríkisendurskoðun sagði bókstaflega að í sjálfu sér væri akademísk staða opinberu háskólanna og Háskóla Íslands akademískt kraftaverk miðað við það fjársvelti sem skólarnir búa við. Það yrði að koma til annað hvort af tvennu, ef skólarnir ættu að halda stöðu sinni, ná að sækja fram og halda áfram að eflast og stækka, það væru verulega, eins og það var orðað, aukin opinber fjárframlög eða heimild til umtalsverðra skólagjalda.

Síðan þá hefur ítrekað verið kallað eftir stefnu stjórnvalda í þessum málum. Fyrir tveimur árum talaði hæstv. menntamálaráðherra fyrir því að opinberu háskólarnir fengju heimild til skólagjalda, væntanlega þá sambærilegra á við einkareknu háskólana. Frá þeirri stefnu hvarf hæstv. ráðherra og ekki virðist stuðningur við það innan stjórnarflokkanna eins og málið hefur oltið síðan. En þá hljóta sjónir manna að beinast að því að hið opinbera auki verulega framlög sín til háskólanna, losi þá úr þeirri spennitreyju fjársveltis og þrenginga sem skólarnir eru í á þessu missiri. Við sáum það síðast rétt fyrir áramótin þegar Háskólinn á Akureyri rifaði seglin svo um munaði vegna fjárskorts af hálfu stjórnvalda og brást við með því að skera harkalega niður og leggja niður tvær deilda sinna. Þessi skóli sem hefur verið í örum vexti og er líklega langbest heppnaða byggðaaðgerð, ef hægt er að líta á hann að hluta til sem byggðaaðgerð, sem ráðist hefur verið í á Íslandi á síðustu missirum. Glæsilegur skóli sem á allt gott skilið. Um er að ræða óverulegar fjárhæðir í stóra samhenginu en fjárhæðir sem skipta máli fyrir skólann þannig að verulega hefur þrengt að honum. Sama má að mörgu leyti segja um Háskóla Íslands. Hann er í töluverðri spennitreyju og einstakar deildir innan skólans eru í mjög vondum málum. Núna síðast íslenskuskor við Háskóla Íslands. Fyrir skömmu bárust fréttir af vanda guðfræðideildarinnar sem í raun og veru getur ekki haldið úti starfsemi lengur þannig að hún standi undir nafni. Hún getur ekki boðið upp á það námsframboð sem verður til þess að nemendur við guðfræðideild geti farið á eðlilegum hraða í gegnum námið. Þannig að þessar gömlu grundvallardeildir skólans eru í miklum vanda.

Í Morgunblaðinu í dag er ágætis fréttaskýring um íslenskuskor Háskóla Íslands eftir Andra Karl þar sem farið er ágætlega yfir stöðuna í íslenskunáminu akkúrat núna. Um leið og menn ræða mikilvægi þess að efla íslenskt mál, byggja upp íslenska tungu, þá er þessi skor háskólans í erfiðum málum. Þetta á við hinar fámennari og minni skorir innan háskólans. Svo mætti lengi áfram telja. En upp úr stendur, eins og kom fram í fyrirspurn frá hæstv. menntamálaráðherra til mín rétt fyrir áramótin, að opinberu háskólarnir vísuðu samtals um 1.000 nemendum frá í fyrra, sem eru mjög miklar frávísanir þó svo að það sé ekki endanleg samræmd tala um hve margir fengu ekki skólavist að lokum. Þar sem það er ekki samkeyrt þannig að hægt sé að fullyrða að 1.000 Íslendingar hafi ekki fengið inni í neinum háskóla eða neinum skóla. Ég er ekki að fullyrða það og svarið bar það ekki með sér. En 1.000 manns var vísað frá því námi sem þeir sóttu um við íslenska háskóla.

Það má lengi tína til. Vissulega hafa framlög til háskólastigsins aukist enda sækja miklu fleiri slíka menntun. Við erum samt sem áður enn þá langt frá því sem við þyrftum að vera, sérstaklega þegar tekið er tillit til aldurssamsetningar íslensku þjóðarinnar. Á meðan Ísland ver t.d. talsvert yfir meðaltali OECD-ríkja til menntunar á grunnskólastigi, þar sem átt hefur sér stað mikil útgjaldasprengja en líka gæðasprengja síðan grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga, erum við rétt undir meðaltali hvað varðar útgjöld á nemanda á framhaldsskólastigi. Á háskólastigi ver Ísland, samkvæmt OECD-tölum á vef Hagstofunnar, 8.251 bandaríkjadal á nemanda á háskólastigi, sem er um 2.400 bandaríkjadölum undir meðaltali OECD-ríkja og þar er Ísland í 17. sæti. Þetta er tala af OECD-vefnum sem ráðherra vitnaði sjálfur til áðan.

Það þarf í sjálfu sér ekki að deila um hvort of litlum fjármunum er varið til háskólastigsins eða ekki. Allt of litlum fjármunum er varið til þess skólastigs, það þarf miklu meiri peninga til að halda stöðu sinni, sækja fram, springa út og blómstra. Þetta er miklu frekar spurning um hvernig við ætlum að fjármagna háskólastigið til framtíðar þannig að skólarnir geti náð þeim markmiðum sem þeir setja sér og íslensku háskólarnir, bæði opinberir og einkareknir, standi í fremstu röð háskóla í öllum heiminum af því að íslenskir háskólar eiga að sjálfsögðu fyrst og fremst í samkeppni við erlenda háskóla. Þess vegna ber að skoða gæði og stöðu íslensku háskólanna sem heild að því leyti.

Mér líst að þessu leyti ágætlega á hugmyndir um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Ég held að það geti orðið til að styrkja skólana báða og ekki síst Kennaraháskólann. Að mínu mati er engin ástæða til að vera með fleiri háskóla en þörf er á. Mörg jákvæð samlegðaráhrif geta komið út úr slíkri sameiningu fyrir nemendur beggja skólanna. Þannig gætu fleiri sótt sér kannski sem aukagrein kennaramenntun o.s.frv. Áfram með það.

Vonbrigðin við þetta frumvarp hæstv. menntamálaráðherra, sem í raun og veru er varla mikið meira en pappírsins virði, eru þau að þarna er verið að festa í lög ramma utan um gæðaeftirlit sem hefur verið notaður til viðmiðunar og breytir í sjálfu sér engu ef ekki kemur inn fé til framkvæmda á rammanum. Komið hefur fram mjög hörð gagnrýni á gæðavanda íslenskra háskóla þar sem lagðar eru til róttækari leiðir. Mikla athygli vakti grein í 1. hefti 14. árgangs tímaritsins Uppeldi og menntun, árið 2005, eftir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands. Rúnar segir, til að það komi inn í umræðuna af því að við erum ekki síst að ræða um gæði íslenskra háskóla, þegar hann er búinn að færa rök fyrir því í grein sinni að gæðavandi íslenskra háskóla sé talsverður, með leyfi forseta:

„Meðal leiða út úr gæðavanda íslenskra háskóla má nefna auknar fjárveitingar til háskólanna, einkum Háskóla Íslands, fækkun og stækkun háskóla, aukið samstarf, einkum Háskóla Íslands o.s.frv. Þá skiptir miklu máli að komið verði á fót sjálfstæðri matsstofnun til að setja gæðastaðla um háskólastarfsemina og gera reglubundna úttekt á námi og rannsóknarstarfi á háskólastiginu. Starfsemi slíkrar stofnunar gæti orðið mikilvægur hvati fyrir háskólana og háskóladeildirnar til að endurskoða og bæta kennslu- og rannsóknarstarfsemi sína um leið og stjórnvöld fengju betri faglegan grundvöll til að byggja stefnu sína og fjárveitingar á.“

Því er ástæða til að beina þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra fyrir yfirferð hennar í lok umræðunnar, ef sá háttur verður hafður á sem oft er að ráðherra tekur umræðuna saman í lokin, hvort þessi leið hefði ekki verið róttækari og vænlegri, að setja á stofn sjálfstæða matsstofnun, sem lögð er til hér og hljómar mjög trúverðugt og gæti orðið til þess að ná fram þeim markmiðum sem frumvarpið og stjórnvöld og skólasamfélagið allt setur sér.

Aðeins aftur að fjárhagsstöðu Háskóla Íslands. Það skiptir mjög miklu máli, og það er grundvallarumræða í íslenskri skólapólitík og háskólapólitík, að taka heildstæða umræðu um fjármögnun háskólastigsins, skólagjöld versus opinber framlög, jafnstöðu einkarekinna og opinberra háskóla hvað varðar framlög á nemanda og svo aftur niðurgreiðslu á framlögum í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna, af því að reiknað hefur verið út að 52–53% af skólagjöldum séu niðurgreidd og í raun og veru opinber námsstyrkur. Því má segja að með því að veita hluta af háskólakerfinu heimild til skólagjalda, sem nemendurnir aftur fá lánað fyrir hjá lánasjóðnum, sé verið að veita til þess hluta kerfisins töluvert meiri fjármuni á hvern nemanda, ef sá reikningur er notaður, en til opinberu háskólanna og þess vegna þarf að taka þá umræðu. Þegar hæstv. menntamálaráðherra tók við menntamálaráðuneytinu á sínum tíma boðaði hún að hún mundi beita sér fyrir umræðu um þessa hluti. Því varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar hæstv. ráðherra hrökklaðist frá þeirri umræðu strax eftir nokkrar vikur í ráðherrastóli og síðan hefur í rauninni engin umræða átt sér stað um þetta efni.

Í þeirri umræðu á að sjálfsögðu ekki að útiloka neitt fyrir fram, hvort og hvernig við fjármögnum háskólana í framtíðinni, að undangenginni markvissri og heildstæðri stefnumörkun um háskólastigið þar sem allt er undir, kostir og gallar skólagjalda vegnir og metnir og aðrar leiðir til að tryggja jafnrétti til náms frá leikskóla og upp í gegnum háskólann. Hlutverk lánasjóðsins þarna þarf sérstaklega að skilgreina ítarlegar. Leiðin sem Tony Blair og verkamannaflokkurinn í Bretlandi fóru á sínum tíma tengist þessu, háskólarnir fengu heimild til skólagjalda og eftirágreiðslur af námslánum voru tekjutengdar. Þeir sem eru með meðaltekjur og lægri tekjur borga því í rauninni ekkert til baka og fá þannig skólagjöldin niðurfelld en þeir sem þéna meira borga skólagjöld sín til baka. Það er hægt að fara margar leiðir í þessu en aðalmálið er að móta heildstæða stefnu um háskólastigið þar sem allt er undir og niðurstaða fæst í það hvernig leysa á opinberu háskólana úr því fjárhagssvelti og þeim alvarlegu kröggum sem þeir eru í, kröggum sem ógna akademískri stöðu háskólanna og skerða verulega samkeppnisstöðu þeirra gangvart erlendum háskólum.

Hægt er að fullyrða að stjórnvöld hafi á liðnum árum, sérstaklega kannski í menntamálaráðherratíð Björns Bjarnasonar, núverandi hæstv. dómsmálaráðherra, bókstaflega verið fjandsamleg opinberu háskólunum, sem er náttúrlega mjög alvarlegt mál, og það hefur að mínu mati bitnað á stöðu þeirra. Það er kominn tími til að leysa þá út úr þeim vanda þar sem hver úttektin á fætur annarri sýnir, hvort heldur frá Ríkisendurskoðun eða óháðar erlendar úttektir, að Háskóli Íslands er í mjög alvarlegri og vondri stöðu. Á mælikvarða annarra sambærilegra háskóla í Evrópu er hann einna verst settur fjárhagslega í allri álfunni. Síðan eru háskólarnir sveltir til vondra verka og neyðarúrræða eins og þess að vísa nemendum frá námi með því að nota ekki undanþáguheimildir sem þeir hafa til að taka inn aðra nemendur en þá sem hafa formlegt stúdentspróf. Opinberu háskólarnir eru því neyddir til að beita slíkum leiðum til að takmarka nemendafjölda inn í skólana.

Þetta er afleit staða og á ekki að eiga sér stað þegar við þurfum svo sárlega á því að halda að fjölga háskólamenntuðu fólki á vinnumarkaði. Það hlutfall er mjög lágt á Íslandi samanborið við önnur lönd, tæp 20% fólks á vinnumarkaði eru með háskólapróf á höfuðborgarsvæðinu og rúmlega 10% úti á landi ef það nær því. Það er mjög lágt hlutfall af háskólamenntuðu fólki á vinnumarkaði þar sem vel yfir helmingur allra á vinnumarkaði er með grunnskólapróf eða styttri formlega skólagöngu. Á sama tíma og þjóðin er talsvert yngri, aldurssamsetning þjóðarinnar er þannig, en aðrar norrænar þjóðir og svo lágt hlutfall fólks á vinnumarkaði okkar er með háskólamenntun þá eru opinberu háskólarnir sveltir undir drep og gert mjög erfitt fyrir að standa undir hlutverki sínu og þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra.

Í haust vakti sérstaka athygli í þessu samhengi ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að nemendur í opinberu háskólunum skyldu taka aukinn þátt í rekstri skólanna, sem á mannamáli hljómaði að opinberu háskólarnir ættu að taka upp skólagjöld til að mæta fjárþörf sinni og fjárhagsvanda. Þrátt fyrir stórorðar yfirlýsingar forustumanna Sjálfstæðisflokksins um að að sjálfsögðu væru landsfundarályktanir stefnumarkandi og ráðandi í stjórnarháttum þeirra og gæfu tóninn, rétt eins og fjölmiðlasáttin var slegin af þar — „verri en ekkert“, sagði Davíð — þá hafa stjórnvöld ekki sinnt þessu kalli enn þá og hæstv. ráðherra sagðist ekki ætla að verða við þessari ályktun landsfundarins að sinni a.m.k. Þarna kvað við mun harðari tón af hálfu Sjálfstæðisflokksins en fyrr, þar sem að mínu mati var bókstaflega sótt að stöðu þjóðskólanna, opinberu háskólanna, vegna þess að með því að veita þeim heimild til skólagjalda sem einu leiðina út úr vandanum væri afleitt núna.

Fyrst verður að taka umræðuna um kosti og galla og hvaða leiðir þarf að fara, og áður en skólagjöld koma til greina þarf að sjálfsögðu fyrst að auka opinberu framlögin verulega þannig að skólarnir séu þá á pari við það sem gerist og gengur og á að vera. Auðvitað verður hæstv. ráðherra að taka af skarið með það hvort hún ætlar að beita sér fyrir auknum framlögum til opinberu háskólanna, sem hún hefur ekki gert, eða veita þeim heimild til skólagjalda. Að mínu mati koma skólagjöld ekki til greina áður en farið hefur fram ítarleg stefnumótun og úttekt á málefnum háskólastigsins þar sem áhrif skólagjalda eru vegin og metin, t.d. út frá jafnrétti til náms, hlutverki lánasjóðsins, fjármögnunar skólastigsins og áhrif skólagjalda á skólasókn.

Þess vegna segi ég að það sem vekur mestu athygli í þessu frumvarpi til laga um háskóla er það sem ekki er í því. Gæðakaflarnir eru ósköp meinlitlir, ef þeir ná fram markmiði sínu. Hv. menntamálanefnd hlýtur að skoða sérstaklega hvort ekki eigi að ganga miklu lengra þar, eins og ég nefndi áðan með tilvitnun í grein Rúnars Vilhjálmssonar. Það eru mikil vonbrigði að frumvarpið skuli ekki heldur taka á fjármögnun háskólastigsins til framtíðar, hvernig leysa á opinberu háskólana úr þeim mikla fjárhagslega vanda sem þeir eru í og hvernig jafna á stöðu opinberu háskólanna gagnvart þeim einkareknu hvað varðar framlög á nemanda sem eins og áður sagði eru jafnhá, og svo fá einkareknu skólarnir heimild til skólagjalda sem aftur eru að hálfu leyti niðurgreidd af hinu opinbera í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna. Einnig hafa verið færð rök fyrir því að miklu útgjaldameira og dýrara sé fyrir ríkisvaldið og hið opinbera að greiða niður útgjöld til skólamála í gegnum lánasjóðinn í staðinn fyrir að setja peningana beint inn í skólakerfið, að fara þá fjallabaksleið að veita heimild til skólagjalda og lána síðan fyrir þeim í gegnum lánasjóðinn, sem er ekkert sérstaklega eftirsóknarverð leið áður en framlögin til þeirra hafa verið jöfnuð og aukin verulega.

Það er að mörgu að hyggja og vonandi breytist þetta frumvarp verulega í meðförum hv. menntamálanefndar og hún hlýtur að taka þessi mál öll til gagngerrar umræðu og endurskoðunar. Nú er loksins lag að taka heildstæða umræðu um málefni háskólastigsins, ekki aðeins innra starf þeirra og gæðaeftirlit heldur og ekki síður það sem skiptir máli og liggur starfi þeirra til grundvallar sem er fjármögnun háskólanna, hvernig þeir eiga að fjármagna sig, hvernig þeir eiga að standa undir kröfum sínum og nafni, hvernig þeir eiga að standast samkeppnina við erlenda háskóla og síðast en ekki síst hvernig losa á opinberu háskólana úr þeirri spennitreyju sem þeir eru í núna vegna fjárskorts undangenginna ára þar sem nemendafjölgun og nemendafjölda skólanna hefur ekki verið mætt með sanngjörnum hætti af hálfu hins opinbera.

Umræðan er rétt að byrja og það er eiginlega eina raunverulega fagnaðarefnið við þetta frumvarp að umræða um háskólastigið skuli fara fram. Þá skulum við líka taka umræðu um það sem máli skiptir, hv. formaður menntamálanefndar, sem nú kveður sér hljóðs og mun vonandi skýra okkur frá sinni sýn á framtíðarfjármögnun íslenskra háskóla.