135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:00]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Ellerti B. Schram fyrir að vekja athygli á því sem hér gert í því frumvarpi sem hann leggur fram ásamt öðrum.

Ég skil þennan tillöguflutning þannig að eingöngu sé verið að tala um og víkja að spurningunni um það hverjir eiga að gegna eða ekki að gegna störfum handhafa forsetavalds ef um er að ræða stutta dvöl eða dvöl erlendis, þ.e. að hér sé eingöngu verið að víkja til þess að handhafar forsetavalds komi þegar forseti Íslands láti af störfum vegna sjúkleika eða geti ekki gegnt störfum vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum.

Í þessari tillögu segir, með leyfi forseta:

„Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki ...“

Þá ber að skoða það að í 7. gr. stjórnarskrárinnar eins og hún er, er ákvæði þar sem fjallað er um það að ef forseti deyr eða lætur af störfum þá skuli kjósa nýjan forseta sem skuli gegna embætti til 31. júlí eða til loka kjörtímabils þess forseta sem var þá áður eða sem sagt lét þá af störfum af þessum ástæðum. Sú breyting sem gæti orðið ef þetta frumvarp yrði að lögum tæki því þá að mínu viti eingöngu til þess varðandi handhafa forsetavalds ef forsetinn verður veikur eða lætur af störfum til skemmri tíma en ekki ef hann lætur af störfum út kjörtímabilið.

En þetta kannski vekur upp spurningar um hvernig með skuli fara og það finnst mér jafnvel miklu mikilvægari umræða, eins og hv. þingmaður Birgir Ármannsson kom hér inn á áðan í sinni ræðu, þ.e. spurningin hvernig handhöfn forsetavalds skuli vera. Þá er líka spurningin um það sem mér finnst jafnvel enn þá brýnni umræða, þ.e. hvernig eigi að hafa þetta æðsta embætti þjóðarinnar. Eigum við og sættum við okkur við það og viljum við hafa embættið með þeim hætti sem nú er? Það væri kannski einfaldara og auðveldara ef hægt væri að aðskilja umræðuna frá persónum af því að nú eru forsetakosningar innan nokkurra mánaða. Því væri kannski heppilegra að ræða málið eftir að þeim er lokið þannig að menn færu ekki að rugla saman annars vegar viðhorfi til einstaklinga og hins vegar með hvaða hætti og hvernig menn vilja hafa stjórnskipun þjóðarinnar.

Ég hef lengi talið að það væri æskilegt að gera grundvallarbreytingu á starfi forseta lýðveldisins. Mér hefur fundist eðlilegra að önnur hvor leiðin yrði farin, að forseti lýðveldisins væri jafnframt forsætisráðherra, væri þjóðkjörinn og myndaði ríkisstjórn með svipuðum hætti og gert er í Frakklandi og Bandaríkjunum. Önnur leið sem hefur verið orðuð og kæmi líka til greina er sú leið að forseti væri þjóðkjörinn og væri jafnframt forseti Alþingis og mundi þá styrkja löggjafarvaldið verulega sem slíkur. Það er önnur hugmynd sem mér finnst koma vel til greina.

Miðað við eðli og inntak stjórnarskrárbundins hlutverks forseta Íslands og það sem ætlunin var og löggjafinn ákvað með stjórnarskrá frá 1944 að yrði verkefni hans þá var um að ræða embætti þar sem um var að ræða raunverulega mjög lítil völd og aðallega táknræn. Það er spurning hvort okkur finnst í tímans rás eðlilegt að hafa forsetaembættið með þeim hætti sem það er, að forsetinn sinni því að fara í opinberar heimsóknir milli landshluta, að forsetinn fari í opinberar heimsóknir eða í óopinberar heimsóknir og eigi viðtöl við fréttastofur eins og Al Jazeera og svari spurningum um stjórnmál eða hvort það er eðlilegt að haga þessu með öðrum hætti.

Ég svara fyrir mig að ég tel að að það væri æskilegt að marka forsetaembættinu töluvert annað hlutverk en nú er, gera forsetaembættið að raunverulegu valdaembætti þannig að forsetinn gegndi þá ákveðnu hlutverki í stjórnskipuninni annaðhvort sem forseti Alþingis eða þá að það væri þjóðkjörinn forseti sem myndaði ríkisstjórn.

Það er svo annað mál hvort við höfum farið rétta leið með þeim ákvæðum í stjórnarskrá að fela þremur einstaklingum, þ.e. forsætisráðherra, forseta Hæstaréttar og forseta Alþingis, handhöfn forsetaembættisins þegar hann er ekki viðstaddur. Ég verð að segja að mér finnst það óheppileg leið. Ég hefði talið heppilegra að einn aðili gegndi þessu hlutverki og að það væri forseti Alþingis sem væri handhafi forsetavalds í fjarveru forseta og hann tæki við því í hvert skipti sem forseti væri ekki viðstaddur, hann gegndi í raun hlutverki varaforseta lýðveldisins. Það væri einfaldari ráðstöfun og þyrfti ekki að hafa mikið umstang í kringum það hverju sinni að í hvert skipti sem forseti tilkynnti um fjarveru þá tæki forseti Alþingis sjálfkrafa við þeim störfum.

Það er hins vegar alveg hárrétt sem flutningsmaður Ellert B. Schram benti á, að við búum við stjórnarskrárákvæði varðandi það þegar forsetinn skreppur til skamms tíma til útlanda, þ.e. að við búum við óeðlilega flókið stjórnkerfi miðað við það hvernig hlutum háttar til í dag. En þá er spurning hvernig með eigi að fara. Ég hefði talið heppilegra að því væri breytt í grundvallaratriðum þannig að einn maður hefði með handhöfn forsetavalds að gera en farið væri út úr því gamla danska kansellíformi sem var mótað árið 1944 að vera með þrjá handhafa. Þess ber að geta að einmitt með tilliti til þess hvernig nútímasamgöngur og fjarskiptatækni eru orðin er ástæða til að hafa þrjá embættismenn til að gegna þessu hlutverki, handhöfn í skammri fjarveru forseta, ekki eins brýn og áður var.

Ég lít þannig á að tilgangur flutningsmanna þessa frumvarps sé sá að vekja athygli á þessum sjónarmiðum og einmitt á því með hvaða hætti farið hafi verið að og hvað þessi þrískipting varaforsetaembættis lýðveldisins sé óeðlileg miðað við daginn í dag og hvað verið sé að grípa til þess að handhafar forsetavaldsins komi til og hafi með hlutina að gera í stuttri fjarveru forsetans þar sem í raun hefði ekki átt að þurfa til þess að koma að aðrir kæmu að valdsviðinu þar sem forsetinn er ævinlega í kallfæri til þess að taka ákvarðanir með þeim hætti sem hægt er að gera. Öll þau sjónarmið sem þannig eru sett fram styð ég fullkomlega af því að það er grundvallaratriði að gera stjórnkerfið sem einfaldast og ódýrast, þó þannig að alls öryggis sé gætt.

Það er alltaf spurningin með hvaða hætti og hvaða eðli og inntak við viljum setja inn í forsetaembættið sem embætti. Ég tel að við höfum að mörgu leyti ekki kannski tekið þá umræðu nægilega fljótt, og gefið forsetaembættinu aukið inntak með tilliti til breyttra viðhorfa og/eða að hafa forsetaembættið raunverulegt valdaembætti þar sem forsetinn er í raun virkasti pólitíski þátttakandinn hverju sinni í íslenskum stjórnmálum. Það er önnur leiðin. Hin leiðin er sú að forseti, eins og nafnið ber með sér miðað við hina fornu goðafræði, sitji á friðarstóli sem forseti Alþingis þjóðkjörinn.