135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:28]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega útilokað fyrir okkur að ætla að taka þá hugmynd að hér verði þjóðkjörinn forseti sem myndar ríkisstjórn og segja að þar með gildi bandarísk stjórnskipunarlög, eða venjur og hefðir eins og eru þar í landi. Það er allt annað mál. Að sjálfsögðu markar og mótar hvert land sínar stjórnskipunarreglur og hefðir. Það er ólíku saman að jafna og mundi aldrei verða að við fetuðum í þeirra fótspor og ekki er verið að leggja það til.

Ég verð að segja það, hv. þm. Mörður Árnason, að ég vildi gjarnan eiga höfundarrétt að þeim hugmyndum sem ég hef reifað hér um breytingar á forsetaembætti lýðveldisins. En því miður á ég það ekki því að þær hugmyndir hafa verið lengi í umræðunni og iðulega verið settar fram tillögur varðandi þetta atriði. Hv. þm. Mörður Árnason benti sérstaklega á fyrrverandi hv. þm., Vilmund heitinn Gylfason, sem m.a. var með ákveðnar hugmyndir, og hans stjórnmálaflokkur á sínum tíma, um að hér yrði þjóðkjörinn forseti sem jafnframt væri forsætisráðherra og myndaði ríkisstjórn, ef ég man rétt.

Það er að mörgu leyti atriði sem ég tel að þurfi að ræða og það þurfi að velta fyrir sér með hvaða hætti inntakið eigi að vera varðandi forsetaembættið. Það er alveg ljóst að sá forseti sem nú situr hefur að mörgu leyti tekið sér meiri völd en fyrirrennarar hans. Hann hefur blandað sér meira í pólitíska umræðu og haft meiri pólitísk afskipti en fyrirrennarar hans. Þá er það spurning hvort löggjafinn telur að það sé eðlilegt að hafa það þannig, hvort það sé óeðlilegt, eða hvort breyta þurfi skilgreiningum á forsetaembættinu og því hlutverki sem það gegnir. Það er alveg ljóst að núverandi forseti hefur tekið sér til muna meiri pólitísk völd en fyrirrennarar hans hafa haft allt frá upphafi forseta lýðveldis þjóðarinnar.