135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

útvarp frá Alþingi.

345. mál
[18:41]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um útvarp frá Alþingi sem ég með stolti segi að er flutt af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi Íslendinga. Þeir eru auk mín hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Jón Magnússon, Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson, Mörður Árnason, Siv Friðleifsdóttir og Þuríður Backman.

Tillagan gengur út á það að Alþingi álykti að fela forseta Alþingis að hefja undirbúning þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás og stefnt verði að því að útvarp frá Alþingi hefjist eigi síðar en þegar þing kemur saman haustið 2008.

Þingsályktunartillagan er raunar ekki ný af nálinni. Hún var fyrst flutt á 131. löggjafarþingi og er flutt sáralítið breytt. Mér liggur við að segja, hæstv. forseti, að trúlega sé óþarfi fyrir mig að mæla fyrir tillögunni því að á síðustu dögum hefur verið haft eftir hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, að málið sé þegar í skoðun hjá æðstu stjórn Alþingis. Þannig segir í Fréttablaðinu þann 29. janúar sl. að Sturlu Böðvarssyni þingforseta lítist ágætlega á tillöguna og eftir honum er haft, með leyfi forseta: „Við eigum láta að skoða þetta og meta kostnaðinn.“ Ég lít svo á að þessi stuðningsyfirlýsing sem við flutningsmenn tillögunnar fáum frá hæstv. forseta segi í sjálfu sér að þess verði skammt að bíða að hún verði að veruleika.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að með nýrri tækni hefur fólki gefist betri kostur á að fylgjast með fundum Alþingis. Samkvæmt 57. gr. stjórnarskrár lýðveldisins ber að halda fundi Alþingis í heyranda hljóði og með tölvutækninni höfum við sannarlega getað tryggt það að þingfundir nái eyrum fjölmargra Íslendinga, bæði innan lands og eins Íslendinga sem staddir eru erlendis. Þannig hefur aðgengi að þingfundunum breyst gríðarlega mikið á síðustu árum en jafnframt hefur orðið ákveðin skipting milli hópa hvað þetta varðar. Segja má að þeir sem sitja við tölvur meira og minna alla daga séu ákveðin forréttindastétt að þessu leyti því að þeir geta fylgst með beinum útsendingum frá þingfundum í tölvum sínum en á sama tíma er fólk að vinna þar sem er kannski útvarpstæki, starfsfólk í frystihúsum, strætisvagnabílstjórar, leigubílstjórar og fleiri hópar sem ekki eiga þess kost að sitja við tölvur, og það getur ekki á sama hátt og tölvufólkið fylgst með því sem er að gerast. Ég tel að með þessu séum við að jafna aðgengi fólks, burt séð frá því hvar það vinnur eða hvers konar störf það stundar, að því sem hér gerist og ég tel fullkomlega eðlilegt að það sé gert.

Auðvitað mun talsverður kostnaður fylgja því að fara út í aðgerð af þessu tagi. Ein sjálfstæð rás á öldum ljósvakans gæti kostað einhver hundruð milljóna. Ég þori ekki að skjóta á það en mér skilst að Ríkisútvarpið hafi haft þá viðmiðunarreglu að ef slík rás ætti að ná til alls landsins gæti kostnaðurinn farið upp í 700 millj. Ég er að tala um stofnkostnaðinn, þ.e. að við það að koma upp sendum um allt land geti kostnaðurinn farið upp í 700 millj. Þetta segi ég algerlega án ábyrgðar en þessi tala hefur heyrst. Að sjálfsögðu er miklu minni kostnaður fólginn í því að koma á dreifikerfi á höfuðborgarsvæðinu þar sem netið er þéttast og flestir búa en við sem flytjum tillöguna miðum auðvitað við að það komi til með að ná til allra landsmanna.

Hæstv. forseti. Ég legg þessa tillögu fram í trausti þess að búið sé að vinna jarðveginn og menn séu sammála um þetta og í ljósi þess mikla stuðnings sem ég sem 1. flutningsmaður tillögunnar fékk hjá meðflutningsmönnum mínum, treysti ég mér að líta svo á að stutt sé í að tillagan komi til atkvæðagreiðslu og verði samþykkt á Alþingi, vonandi í vor, þannig að að hausti geti þeir sem starfa þar sem er útvarpstæki fylgst með þingfundum á sama hátt og þeir sem starfa við tölvur.