136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir spurningar um forsvaranleg vinnubrögð og lokastöðu stofnana á árinu. Ég get sagt og verð að vera heiðarlegur í því að ég hefði auðvitað viljað hafa það fyrir framan mig hvað varðar áætlunargerðina að staðan væri betri og ljósari gagnvart hugsanlegri lokastöðu stofnana.

Við höfum fengið níu mánaða yfirlitið í fjárlaganefnd og séð að um 20% stofnana eru komin fram úr. Fjáraukalagafrumvarpið hefur verið lagt fram í dreifingu þannig að við getum notað þær upplýsingar og skoðað á móti níu mánaða uppgjörinu. Hins vegar væri það mikill kostur eins og hv. þingmaður benti á að lokastaða ársins væri ljós. Við höfum ekki fengið þær spátölur inn á borð til okkar en hins vegar hefur maður í sjálfu sér getað áætlað lokaniðurstöðuna en hún hefur ekki borist formlega.

Ég vil alla vega segja það hér, virðulegur forseti, að það hefði verið kostur frekar en galli að hafa lokastöðuna þegar við förum yfir þessar áætlanir og inn í þessa umræðu.