136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta býsna bratt sagt af varaformanni fjárlaganefndar. Það vantar öll grundvallaratriði inn í fjárlaganefnd og fjárlagaumfjöllunina til að hægt sé að vinna fjárlög. (Gripið fram í: Ekki öll.) Langflest, þegar vantar bæði tekjur og stóran hluta gjaldanna, greiðsluáætlun og greiðslugetu ríkissjóðs. Þetta er bara vinnuplagg sem lagt er fram af hálfu meiri hlutans. Þess vegna höfum við einmitt skrifað bréf til Seðlabankans og fjármálaráðherra um grundvallaratriði sem setja þessum fjárlögum sinn ramma.

Ég geri mér grein fyrir því að staðan er erfið en þá eiga öll atriði að koma upp á borðið, líka kröfur og skilmálar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hann hefur sett fyrir fjárlagagerðinni. Ég skil ekkert í því af hverju hv. varaformaður (Forseti hringir.) fjárlaganefndar, Kristján Þór Júlíusson, stendur ekki (Forseti hringir.) með mér í því að fá allar (Forseti hringir.) upplýsingar upp á borðið í staðinn fyrir þetta stöðuga leynimakk. (Forseti hringir.)