136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir mjög málefnalega, góða og ítarlega yfirferð um hans sýn til þessa verkefnis sem við stöndum öll frammi fyrir, vandasömu verkefni. Það var nokkuð annar bragur yfir yfirferð hans en félaga hans, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fyrr í umræðunni um þann vanda sem við stöndum saman frammi fyrir.

Þar sem stigmögnunin í mati á gæðum framsöguræðu hv. formanns fjárlaganefndar fer vaxandi eftir því sem líður á umræðuna, eins og einn hv. þingmaður benti mér á, held ég að í ljósi þeirrar greiningar sem hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi áðan um fjármögnunarþörf ríkisins sé augljóst að við er að glíma gríðarlegan stabba, háar fjárhæðir, og þá væri ekkert úr vegi að kalla eftir því, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem hv. þingmaður hefur gegnt á Alþingi, hvernig hann sjái best tekið á þeim vanda sem við blasir. Við erum að ræða það að áætlaður halli sé um 160–170 milljarðar og mat manna liggur til þess að tekjuspáin eigi hugsanlega eftir að leiða til enn stærra gats og að útgjaldaþörfin sé vanmetin. Það fer ekki saman í umræðunni hjá meiri hlutanum hvaða leiðir menn vilja sjá, annars vegar í því að taka á rekstri ríkisins og hins vegar í þeim verkefnum sem annars staðar geta blasað við, svo sem í uppbyggingu á atvinnulífinu. Þess vegna væri mjög fróðlegt að heyra hv. þingmann fylgja því örlítið nánar eftir í svari við þessu andsvari mínu.