136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilin svör. Ég tíni til tillögur stjórnarandstöðunnar varðandi hugsanlega hagræðingu og niðurskurð. Jón Bjarnason var búinn að benda á Varnarmálastofnun en framlög til hennar eru að vísu skorin niður í tillögum ríkisstjórnarinnar um 20% en hún er hins vegar með fjárveitingar upp á um 1.100 millj. kr. og hins vegar stuðning við NATO upp á 70 millj. kr. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson bætir við og nefnir Fiskistofu og síðan hugsanlega sjúkratryggingastofnun. Þar sem tíminn var úti ætla ég að gefa hv. þingmanni tækifæri til að koma hér í síðara andsvari sínu og bæta við listann því það liggur fyrir að víða þurfi að hagræða og þess vegna er gott að fá upplýsingar frá hv. þingmönnum eins og Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem hefur verið lengi að störfum á þinginu um þessa hluti.