143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[16:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt í upphafi ræðu minnar að fagna því að þessi skýrsla skuli vera komin fram, því hún var gerð undir handleiðslu fyrri ríkisstjórnar. Sú stofnun sem um er rætt hér, embætti sérstaks saksóknara, var sett á laggirnar með lögum nr. 135/2008. Lagasetningin hlaut staðfesti Alþingis þann 11. desember sama ár. Þess ber að geta að samkvæmt 7. gr. þeirra laga, sem tóku síðar breytingum eftir því sem tíminn leið, átti að leggja niður embætti sérstaks saksóknara 1. janúar 2010. Upphaflegar hugmyndir voru þær að stofnunin mundi einungis starfa í tvö ár.

Farið var að framlengja ákvæðið um hvað stofnunin ætti að starfa lengi og svo voru lagðar til breytingar á lögunum. Með lögum nr. 82/2011 kom sú breyting á 7. gr. að ráðherra mundi eftir 1. janúar 2013 leggja til, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að leggja embættið niður. Þá skyldi hann leggja fyrir Alþingi frumvarp þess efnis og verkefni embættisins hverfa til lögreglu eða ákæranda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála. Eftir þessari lagagrein er nú unnið og þess vegna er skýrslan mjög gott innlegg í umræðuna um hvert embætti sérstaks saksóknara á að fara til þess að hægt sé að byggja upp saksókn í efnahagsbrotamálum, eins og nafn skýrslunnar ber með sér.

Í skýrslunni kemur fram að það skuli vera búið að taka ákvarðanir um þetta atriði 1. janúar 2015. Ný ríkisstjórn og hæstv. innanríkisráðherra hafa því þetta ár til að taka ákvörðun. Þess bera að geta að í þessari vönduðu skýrslu sem er mjög yfirgripsmikil er velt upp nokkrum möguleikum sem hæstv. innanríkisráðherra hefur val um að einhverju leyti. Svo má líta á það að kannski eru einhverjir möguleikar ekki nefndir hér.

Hér er fyrst nefnt að við taki stór efnahagsbrotastofnun. Efnahagsbrotastofnun á grunni embættis sérstaks saksóknara er líka nefnd. Það er rætt um möguleika á embætti lögreglustjóra skattalagabrota með ákæruvaldi. Hér er líka rætt um efnahagsbrotadeild hjá embætti héraðssaksóknara. Það er fjallað um þriggja stoða rannsókn og ákæruvaldsstofnun og einnig er drepið á að rannsókn og saksókn sé færð til ríkislögreglustjóra eða lögregluembætta. Það eru því ýmsir möguleikar uppi og ítarlega fjallað um kosti og galla hverrar hugmyndar. Ég tel að mjög ítarlega sé farið yfir þetta hér og það er vel því þetta sparar heilmikla vinnu við þá ákvörðun sem hæstv. innanríkisráðherra þarf að taka í framhaldinu.

Það er ánægjulegt að þessi skýrsla skuli vera samin að beiðni fyrrverandi innanríkisráðherra því að þá er frekar von um að samkomulag verði um leiðina sem farin verður, ég tala nú ekki um ef það verður einhver af þeim leiðum sem minnst er á í skýrslunni.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður 31. desember 2014, enda báru fjárlög þess sterklega merki þar sem lagður var til mikill niðurskurður hjá embættinu. Þá var fjárlaganefnd einungis að fara eftir lögum, því í lögum er ákveðið að embættið skuli lagt niður og fært í einhverri mynd inn í einhverjar þær stofnanir sem hugsanlega verða fyrir valinu og minnst er á í þessari skýrslu eins og ég fór yfir.