143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

ráðstafanir gegn málverkafölsunum.

266. mál
[16:33]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir framsögu í þessu máli sem við flytjum saman, en því er ekki að leyna að íslensk myndlist og sjónmennt eru mér mikið hjartans mál, hafa verið mér það í tæpa fimm áratugi. Það urðu mér mikil vonbrigði í lok síðustu aldar þegar upp komst að hér á landi væri mikið af fölsuðum málverkum í umferð.

Nú eru liðin u.þ.b. 20 ár frá því að rannsókn á þessum málum hófst, að vakin var athygli ríkislögreglustjóra og Listasafns Íslands á því að hér væru allmörg verk í gangi sem væru sannarlega fölsuð og sem væru seld. Ég ætla að rekja það hér og nú hvernig þessi fölsun átti sér stað og hvernig rannsóknin gekk fyrir sig.

Í frumrannsókninni voru verkin skoðuð en einnig var farið með útfjólublárri skimun á verkin. Það leiddi í ljós að verkum hafði verið breytt, málað hafði verið yfir eldri verk en öðrum verkum var gefin ný áritun og jafnvel þannig að slípuð hafði verið niður áritunin sem fyrir var. Tekin voru sýni úr verkunum. Það er nefnilega þannig að litasagan er nokkuð þekkt og saga hvers málara og þeirra lita sem málararnir notuðu er sömuleiðis nokkuð þekkt þannig að hægt er að bera meint fölsuð verk saman við ófölsuð og þá kemur ýmislegt í ljós. Í þessari rannsókn kom það á daginn að verk voru fölsuð með þeim hætti að áritun og myndverki var breytt. Ný mynd var máluð frá grunni en hún var líka máluð á gamlan striga. Það má kannski segja eftir á að sum þessara verka og sumar þessara falsana hafi verið gerðar með viðvaningslegum hætti en engu að síður urðu margir hér fyrir tjóni.

Í þessu dómsmáli var mikið tekist á um tegund málningar sem kennd er við akrýl sem fundin var upp á tilraunastofu 1928 en dómurinn vildi ekki viðurkenna það ártal sem grunn fyrir rannsóknina og vildi meina að verk sem máluð væru eftir 1928 gætu verið ófölsuð. Liturinn kom þó ekki á markað hér á landi fyrr en árið 1968. Vitað var þessir málarar notuðu þessa liti aldrei og voru sum fölsuðu verkin hreinlega máluð með húsamálningu úr akrýl þannig að það var ekki alltaf merkilegt efni sem notað var.

Það var rakið í tímaritsgrein hvernig t.d. verk eftir einhvern Poul S. verður að verki eftir Þorvald Skúlason frá 1937 þar sem búið er að skrapa upp hluta af áritun þessa Pouls og skrifa bókstafinn Þ ofan í l-ið í Poul þannig að úr verður Þ.S. o.s.frv., þannig að reynt var að gera þetta trúverðugt.

Það má svo sem spyrja: Skiptir þetta nokkru máli? Er ekki myndin jafn góð hver svo sem hefur málað hana? Um það ætla ég ekki að segja annað en það að ef við viljum breyta myndlistarsögunni og menningarsögunni með fölsuðum verkum er illa komið fyrir okkur. Þessi tillaga okkar hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur er einmitt gerð til þess að sporna við því að fölsuð verk verði seld á markaði hér á landi. Nú eru liðin rúmlega 20 ár frá því að þetta mál kom upp en enn eru að koma fram fölsuð verk hér á landi. Það er alveg óásættanlegt að hægt sé að selja aftur verk sem hafa verið fölsuð og eru dæmd fölsuð. Það verk sem ég vísa til hér, sem er nýmetið sem falsað, mun aldrei fara á markað. Það mun verða ritað aftan á það: Þetta verk er falsað. Það verður sömuleiðis geymt í ramma og aftan á rammann verður skrifað: Þetta verk er falsað.

Það er hins vegar meiningarmunur á því hvernig falsanir eru afgreiddar í samfélagi okkar. Ég ætla að byrja á því að vitna til þess sem ég fann í blaði í morgun. Bandaríski leðurvöruframleiðandinn Coach hefur höfðað 700 dómsmál og eitt gegn flóamarkaði í Flórída. Þar voru leðurvöruframleiðandanum dæmdar hvorki meira né minna en 5,5 milljónir bandaríkjadala, þ.e. u.þ.b. 640 milljónir, í skaðabætur fyrir að seldar voru falsaðar vörur, segir í fréttinni. Ef vörurnar eru falsaðar eru þær ekki frá þeim.

Þegar hingað koma gallabuxur sem eru merkjavörur, t.d. Levi's-gallabuxur, en eru ekki frá Levi Strauss, eru þær gerðar upptækar í tolli og þeim er eytt. Fölsuðum málverkum hér á landi er ekki eytt, sem væri annars hið eðlilegasta niðurstaðan í fölsunarmáli, það á að eyða fölsun. Ég hef grun um að húsgögnum sem hér eru flutt inn og eru fölsuð, falsaðar eftirlíkingar af verkum frægra hönnuða, sé líka eytt. En engu að síður, ég sagði hér áðan að tekið yrði fram varðandi það verk sem nýlega er komið fram að er falsað, að svo sé. Það verður áritað aftan á að það sé falsað. Því verður ekki eytt vegna þess að það er sönnunargagn í þessu máli.

Þó að salurinn sé þunnskipaður hér um stund vona ég að þingmenn taki undir með okkur hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og styðji framgang þessa máls. Við erum m.a. að leita eftir því að þar til bær yfirvöld taki frumkvæði í fölsunarmálum. Þessum dómsmálum lauk með hryggilegum hætti. Þar var nánast viðurkennt að verkin væru fölsuð en vegna formgalla í málsmeðferð var málinu vísað frá, eins og segir í grein sem ég er með undir höndum.

Ég ætla að fá að lesa upp úr þeirri grein, með leyfi forseta:

„Dómurinn taldi að vísa bæri frá málum vegna vanhæfis þess sem rannsakaði.“

Það er náttúrlega algjörlega óásættanlegt.

Ég endurtek, þetta er mér mikið hjartans mál og ég vona að íslenskir myndlistarmenn gangi sáttir frá borði þegar þessi tillaga til þingsályktunar verður samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.