144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[15:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir að taka upp þessa umræðu um notendastýrða persónulega aðstoð. Ég held að hér sé um alveg gríðarlega mikilvægt mál að ræða fyrir fatlað fólk og aðstandendur þess sem og allt samfélagið eins og hv. þingmaður benti á í upphafi. Það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur áðan kemur mér svo sannarlega ekki á óvart, hún sagði að notendur væru mjög ánægðir með þetta þjónustuform. Það er ekkert skrýtið, einmitt vegna þess að hér er um að ræða hugmyndafræði sem byggir á því að allar manneskjur, óháð eðli og alvarleika skerðingar, geti tekið eigin ákvarðanir, stjórnað eigin aðstoð og mótað sinn eigin lífsstíl. Þetta er nokkuð sem ég held að við viljum öll og það skiptir engu máli hvort við eigum erfitt með heyrn, sjón, göngu eða hvað annað það nú er.

Það mikilvægasta við NPA er, og þá sérstaklega frá sjónarhóli notandans, að með NPA stjórnar fatlað fólk því sjálft hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær hún fer fram og hvar, þ.e. fólk stýrir sínu lífi sjálft sem er mjög ólíkt því sem gerist í hinu almenna þjónustukerfi þar sem fólk þarf að laga sig að forsendum þjónustuveitandans. Það eru held ég aðstæður sem við mörg hér inni eigum mjög erfitt með að ímynda okkur hvernig eru.

Ég ætla í síðari ræðu minni að koma meira inn á framtíðarmúsíkina í þessu efni (Forseti hringir.) en þetta er það mikilvægasta sem fatlað fólk getur fengið.