144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[15:53]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og aðrir þakka ég fyrir að þessi umræða skuli tekin hér. Mér finnst ástæða til að ítreka enn og aftur að það eru sveitarfélögin sem hafa með málaflokk fatlaðra að gera. Til þess að við getum lögfest NPA hlýtur að þurfa að liggja fyrir faglegt og fjárhagslegt mat á því verkefni sem sett var á laggirnar og átti að ljúka 2014. Þegar það liggur fyrir er hægt að tryggja að NPA geti orðið þjónustuúrræði þar sem sú framkvæmd er byggð á sem áreiðanlegustum upplýsingum frá notendum þjónustunnar, þeim aðilum sem veita þjónustuna og stjórnvöldum um hvernig þjónustunni verði best fyrir komið. Sveitarfélögin hafa þennan málaflokk. Þessi þáttur kallar eftir auknu fjármagni og það verður líka að taka það með í þennan reikning. Það kann að vera að samhliða því að NPA verði lögfest með einum eða öðrum hætti þurfi hæstv. velferðarráðherra að endursemja við sveitarfélögin um það fjármagn sem ríkið flutti til sveitarfélaganna um leið og málaflokkurinn var fluttur.

Hins vegar getum við væntanlega öll verið sammála um að það að veita fötluðum tækifæri til sjálfstæðs lífs, til þess að hafa sjálfræði um það hvernig þeir haga lífi sínu, hlýtur að vera meginmarkmiðið með NPA. Því ber að fagna að hæstv. ráðherra skuli ætla að framlengja þetta samstarfsverkefni og láta síðan gera faglega og fjárhagslega úttekt til að hægt sé að taka ákvörðun um með hvaða hætti við ætlum að lögfesta NPA.