144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að byrja þessa umræðu og sömuleiðis fyrir þá vegferð sem virðist stefna í, þó reyndar hægar en maður hefði vonað. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum sem og öðrum.

Hérna er rætt svolítið mikið um ábata af NPA og með réttu. Það er mikilvægt að halda því til haga að með NPA getur fólk tekið þátt í ýmsu sem það getur annars ekki tekið þátt í, þar á meðal atvinnulífi. Að mínu mati er það samt ekki það sem ætti fyrst og fremst að hafa í huga. Þótt það sé vissulega mikilvægt þegar kemur að kostnaðargreiningu og því um líku finnst mér að við eigum aðallega að horfa til þeirra bættu lífskjara sem einstaklingarnir sjálfir njóta í kjölfarið.

Við á hinu háa Alþingi erum ávallt í þeirri stöðu að þurfa að leggja eitthvert verðmat á hluti sem í raun eru ómetanlegir. Við þurfum að verðleggja heilbrigðiskerfið þar sem líf fólks er í húfi o.s.frv. Ég legg til, virðulegi forseti, að frelsið sé eitt af því sem er ómetanlegt. Einstaklingar sem njóta mests af NPA-þjónustu eru einstaklingar sem ellegar eru fastir ýmist heima hjá sér eða í einhverjum öðrum aðstæðum þar sem þeir geta ekki tekið þátt í lífinu sjálfu, t.d. í félagsstarfi eða að skreppa á kaffihús, hlutum sem aðrir taka réttilega sem sjálfsögðum hlut. Ég hef stundum velt fyrir mér hvort þessi málaflokkur eigi kannski að einhverju leyti meira heima hjá innanríkisráðuneytinu, ekki að ég sé viss um að það sé endilega jákvæð ráðstöfun. Ég velti því stundum fyrir mér vegna þess að mér finnst það líka spurning um réttindi einstaklings til frelsis. Þá velti ég fyrir mér hvernig við mundum tala um málið ef við hefðum þjóðfélagshópa sem væru bundnir með reipum. Hvað mundum við borga til að taka af þeim reipið, gera þau frjáls, leyfa þeim að lifa sínu lífi eftir eigin höfði án tillits til dagskrár einhvers annars starfsmanns? (Forseti hringir.) Ég held að við mundum borga mikið fyrir það. (Forseti hringir.) Ég legg til að við gerum það og hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.