144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er ætlunin að skýra nánar tiltekin ákvæði laganna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að ráðherra gefi árlega út leiðbeinandi reglur um fjárhagsaðstoð þar sem m.a. skuli kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar. Skuli slíkar reglur settar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Markmið með ákvæði þessu er að tryggja betra samræmi milli reglna sveitarfélaga og er því lagt til að ráðherra verði falið að útbúa reglur til leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir þegar þær setja sér reglur um fjárhagsaðstoð. Þá er sérstaklega tekið fram að í slíkum leiðbeiningum skuli koma fram viðmiðunarfjárhæðir fyrir sveitarfélög um grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar.

Fram til ársins 2011 gaf ráðuneytið árlega út viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar á grundvelli samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga. Síðan því var hætt hefur borið á að munur milli sveitarfélaga sé að aukast að þessu leyti. Þrátt fyrir að sveitarfélögin hafi ákveðið sjálfræði um endanlega fjárhæð fjárhagsaðstoðar verður hún samt að ná því markmiði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að tryggja félagslegt og fjárhagslegt öryggi íbúa sveitarfélagsins, samanber 1. gr. laganna. Tel ég því mikilvægt að ráðherra verði falið að gefa út árlegar viðmiðunarfjárhæðir sem sveitarfélög geti litið til við ákvörðun fjárhæðar í sínum reglum. Ég tel líka mjög mikilvægt að þær reglur séu unnar í góðu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Hins vegar er ákvæði um að sveitarfélögum verði heimilað að setja í reglur sínar skilyrði um virkni þeirra sem eru vinnufærir en fá fjárhagsaðstoð þar sem þeir hafa enn ekki fengið störf og eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum eða hafa fullnýtt bótarétt sinn. Meginmarkmið með þeim heimildum er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt bótarétt sinn til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni.

Frumvarpinu er ætlað að taka af skarið um inntak heimilda til að skilyrða fjárhagsaðstoð en nokkur óvissa hefur verið uppi um það efni, einkum þar sem núgildandi lagaákvæði eru komin til ára sinna. Þrátt fyrir að þessi óvissa hafi verið til staðar hefur óformleg könnun ráðuneytisins sýnt sig að langflest sveitarfélög eru með reglur hvað varðar skilyrði í reglum sínum um fjárhagsaðstoð.

Frumvarpinu er líka ætlað að skapa lagagrundvöll undir samstarf milli Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaganna um mat á vinnufærni og þjónustu við atvinnuleitendur sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum. Það er von mín að frumvarpið muni leiða til þess að bæta þjónustu og stuðning við þá atvinnuleitendur sem fullnýtt hafa rétt sinn innan atvinnuleysisbótakerfisins. Það mun þá vonandi leiða til þess að fleiri þeirra munu aftur komast á vinnumarkað og draga úr óvinnufærni vegna langtímaatvinnuleysis.

Í 2. gr. sem er ansi ítarleg er tilgreint frá a- til e-liðar hvað virk atvinnuleit getur talist til að ramma þetta vel af. Lagt er til að fram skuli fara mat á vinnufærni umsækjanda áður en kemur til skoðunar hvort binda eigi fjárhagsaðstoð skilyrðum um virkni. Tekið er fram hvað geti talist til virkrar atvinnuleitar en þar var höfð hliðsjón af sams konar kröfum og gerðar eru til atvinnuleitenda innan atvinnuleysistryggingakerfisins svo að þeir teljist vera í virkri atvinnuleit.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einungis verði heimilt að kveða á um skerðingu mánaðarlegrar grunnfjárhagsaðstoðar félagsþjónustu sveitarfélaga í tvo mánuði í senn. Hins vegar eru ekki sett takmörk á það hversu oft sami einstaklingur getur sætt skerðingum, en gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi fari aftur í mat á vinnufærni sé það gert oftar en tvisvar.

Þá er lagt til að ekki verði heimilt að skerða mánaðarlega grunnfjárhagsaðstoð sem hlutaðeigandi á rétt á samkvæmt reglum sveitarfélagsins um meira en helming. Njóti hjón eða sambúðarfólk sameiginlegrar fjárhagsaðstoðar skal þó gæta þess að einungis fjárhagsaðstoð þess maka sem uppfyllir ekki lengur skilyrði samkvæmt ákvæði þessu skerðist. Þegar um er að ræða svokallaðar heimildargreiðslur vegna sérstakra aðstæðna er gert ráð fyrir að heimilt sé að fella slíkar greiðslur niður í allt að sex mánuði í senn. Hins vegar er lagt til að óheimilt verði að skilyrða heimildargreiðslur sem koma til vegna aðstæðna barna, svo sem greiðslu fyrir tómstundir eða skólamáltíðir og þar sem reglur sveitarfélags taka framfærslu barna inn í útreikning grunnfjárhæðar. Frumvarpið er unnið í samvinnu og samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Sambærilegt frumvarp hefur komið fyrir Alþingi, var lagt fram árið 2009, um lögfestingu lagastoðar fyrir skilyrðingum. Það var hins vegar ekki jafn ítarlegt og hér er verið að leggja til og var ákvæðið fellt úr frumvarpinu í meðferð þingsins samkvæmt tillögu félags- og tryggingamálanefndar, meðal annars vegna fram kominna athugasemda Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ég og við í velferðarráðuneytinu teljum hins vegar að með þeim breytingum sem búið er að gera og þar sem þetta hefur verið unnið mjög náið með sambandinu að þeirra ósk, þá sé komið til móts við þær athugasemdir sem komu fram frá sambandinu og komu fram í meirihlutaálitinu við meðferð málsins.

Það var síðan í upphafi árs 2013 að unnið var frumvarp í velferðarráðuneytinu um lögfestingu ítarlegri lagaheimildar fyrir skilyrðingum sem er nánast samhljóða því sem hér er verið að leggja til. Frumvarpið var þannig hluti samstarfsverkefnis ríkis, sveitarfélaga og samtaka aðila vinnumarkaðar, Vinna og virkni 2013, sem hafði einmitt það meginmarkmið að virkja atvinnuleitendur sem höfðu fullnýtt eða mundu að óbreyttu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins til þátttöku á ný á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi mundi leiða til óvinnufærni. Það frumvarp var hins vegar ekki lagt fram á Alþingi.

Ég vil líka nefna að Vinnumálastofnun hefur verið með verkefni sem heitir Stígur, sem hefur verið unnið í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Það fór tiltölulega hægt af stað, en þau sveitarfélög sem hafa einmitt gengið lengst í því að taka upp virka atvinnustefnu í sinni félagsþjónustu hafa líka verið að ná hvað bestum árangri. Vil ég benda sérstaklega á sveitarfélagið Hafnarfjörður sem fékk núna sérstaka viðurkenningu fyrir verkefni sitt sem hefur verið kallað Áfram-verkefnið.

Ég hef hér farið í gegnum meginatriði frumvarpsins. Það er von mín að með þessum breytingum getum við náð betra samræmi í framkvæmd fjárhagsaðstoðar milli sveitarfélaga og að sveitarfélögin fái heimildir sem komi til með að virkja hóp atvinnuleitenda sem eru í hvað mestri hættu á að falla varanlega út af vinnumarkaði vegna langtímaatvinnuleysis.

Ég hef á undanförnum vikum og mánuðum átt fundi með starfsmönnum félagsþjónustu sveitarfélaganna víða um land, hef hitt fulltrúa allrar félagsþjónustunnar á suðvesturhorninu hjá stærstu sveitarfélögunum og víða úti um land líka. Hefur verið mjög áhugavert að heyra hversu miklu það skilar að vera með mjög virkt samstarf á milli Vinnumálastofnunar og félagsþjónustunnar, hvað þetta hefur skipt þessa einstaklinga miklu máli og hversu mikilvægt það er að fara frá því viðhorfi sem hefur kannski verið gagnvart félagsþjónustunni og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna og horfa á einstaklinginn og vinna með honum og aðstoða hann eftir bestu getu. Ég tel að frumvarpið endurspegli þær áherslur.

Að lokinni umræðu vil ég leggja til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.