145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ræðu hennar og þær tölulegu upplýsingar um stöðu mála sem hún fór yfir í ræðunni. Ég held nefnilega að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við hömrum á þessum tölulegu upplýsingum.

Þó svo að það líti ekki alveg nógu vel út í þessari baráttu akkúrat núna þá skipta svona ræður einmitt svo miklu máli vegna þess að það er fullt af fólki sem er að hlusta á umræðuna, það er fullt af fólki sem tekur tölulegu upplýsingarnar til sín. Þetta skiptir máli upp á samfélagsumræðuna. Við viljum auðvitað að almenningur sjái hversu rosalega ósanngjarna stefnu er verið að keyra.

Ég verð að viðurkenna að mér var ansi brugðið við andsvar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur í andsvörum fyrir hlé þar sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði það fullum fetum að hún teldi óeðlilegt að bætur og lægstu laun væru sama talan og hélt svo áfram og talaði um bótasvik í kerfinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að nú hafa fleiri þingmenn meiri hlutans og hæstv. fjármálaráðherra talað á þessum nótum: Getur verið að hv. þingmenn séu að gára vatnið og gera lífeyrisþega tortryggilega og þar með að reyna að réttlæta það að ekki sé farið í kjarabætur til þessa hóps og reyna þar með að fá almenning til þess að kaupa það að þetta sé í lagi?