145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé áreiðanlegt að það sé að gleymast. En það sem mér finnst vera mikið áhyggjuefni í allri þessari umræðu er að þegar stjórnarliðið segir að þetta sé voða gott sem þeir eru að gera og það sé samkvæmt lögum og allt þetta, þá er erfitt að hrekja þessa staðreynd með lögin. Í 69. gr. almannatryggingalaga segir að bætur almannatrygginga eigi að hækka annaðhvort eftir launaþróun eða eftir vísitölunni. Síðan reikna þau launaþróunina þannig út og segja að það hafi alltaf verið gert þannig að launavísitalan sé tekin en launaskriðið dregið frá til þess að lækka þá tölu. Það þýðir auðvitað að þegar samningar eru gerðir sem eru sérstaklega um lágmarkslaun njóta aldraðir og öryrkjar ekki launaskriðs á vinnumarkaði, það bætir ekki kjör þeirra, og þeir njóta heldur ekki þessara sérstöku hækkana sem fara til láglaunafólks.

Það er réttlætið. Réttlætingin er sótt í lagabókstafinn sem settur var á sínum tíma af fólki sem vildi standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja. Andi þeirra laga er að það á að verja kjör hópsins. Andi þeirra laga gengur ekki út á að tryggja það, þegar árar eins og nú árar, að þessi hópur sé verst settur í samfélaginu. Það gengur hreinlega gegn anda laganna og það gengur gegn samþykktum Framsóknarflokksins. En það er Framsóknarflokkurinn sem ber uppi þessa (Forseti hringir.) tillögu og réttlætir hana með því að það sé svo nauðsynlegt að halda þessum hópi á verri kjörum af því að hann noti hvert tækifæri til að svíkja og næla sér í meiri pening út úr bótakerfinu.