149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

rekstrarumhverfi afurðastöðva.

[14:00]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Fyrr í mánuðinum undirrituðu fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Því ber að fagna og vil ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ásamt öllum þeim sem að samningavinnunni komu fyrir að ná fram niðurstöðu sem virðist vera nokkuð óumdeild.

Það vekur þó athygli að hvergi er minnst á stórt hagsmunamál sauðfjárbænda, þ.e. afurðastöðvarnar. Í þeim viðræðum sem fóru fram um starfsskilyrði sauðfjárræktar var nefnt að fara þyrfti ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðvanna. Í landinu eru níu afurðastöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þær afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leyti og því má segja að það sé alltaf hagur bænda að grundvöllur sé til að hagræða í rekstrinum.

Í bókun með samkomulaginu segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslu KPMG kemur fram að svigrúm sé til hagræðingar í afurðastöðvageiranum sem mögulegt sé að nýta til góðs í þágu bænda og neytenda. Aðilar eru sammála um að mikilvægt sé að ná fram aukinni hagræðingu í greininni og að kannað verði hvort sláturleyfishafar geti átt samstarf um afmarkaða þætti í starfsemi sinni.“

Hv. þingmenn Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir lögðu fram frumvarp í haust þess efnis að afurðastöðvar í kjötiðnaði væru undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga til að bæta rekstrarumhverfi þeirra. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til að taka tillit til þessa mikla hagsmunamáls þegar starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar eru endurskoðuð? Er einhver vinna í gangi innan veggja ráðuneytis sjávarútvegs og landbúnaðar þess efnis að skoða rekstrarumhverfi afurðastöðva í kjötiðnaði miðað við núgildandi tollasamninga?