150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

viðbrögð við spá Seðlabankans um hagþróun.

[10:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Minni hagvöxtur mun að sjálfsögðu draga úr tekjum ríkisins en á sama tíma er aukin þörf fyrir innviðafjárfestingu. Kemur þess vegna ekki til greina, að mati hæstv. ráðherra, að endurskoða forgangsröðunina í útgjöldum ríkisins? Hæstv. ráðherra hefur stundum haldið því fram að báknið sé ekki raunverulega að stækka, þ.e. hlutfallslega, vegna þess að landsframleiðslan aukist þeim mun meira. En nú snýst það við. Nú dregst landsframleiðslan saman og fyrir vikið, samkvæmt skilgreiningu hæstv. ráðherra, þenst báknið skyndilega út. Þarf ekki við þær aðstæður að líta til forgangsröðunar í ríkisfjármálum? Er ekki tilefni til þess, varðandi fyrirtækin, að lækka tryggingagjaldið hraðar og ýta þannig undir aukna verðmætasköpun, og vonandi þá draga aftur úr atvinnuleysi? Maður veltir því fyrir sér hvort slíkt væri við þessar aðstæður ekki einfaldlega til þess fallið að styrkja stöðu ríkissjóðs með skynsamlegri skattalækkun.