150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

viðbrögð við spá Seðlabankans um hagþróun.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í umræðu um báknið lagt áherslu á það að ríkið þarf að verða miklu skilvirkara. Við erum í stafrænni byltingu núna til þess að ríkið sé sveigjanlegra, hraðvirkara og skili betur þjónustu sinni út til fólks og fyrirtækja með skilvirkari hætti. Þar er t.d. innleiðing stafrænna lausna einn lykilþáttur. Við þurfum líka að tryggja að alls staðar annars staðar sé verið að nýta fjármunina sem allra best. Þegar hv. þingmaður spyr hvort við ættum ekki að vera að nýta fjármunina annars staðar og betur og forgangsraða upp á nýtt þá hef ég í þeirri umræðu einfaldlega verið að vekja athygli á því að stóru fjárhæðirnar eru í almannatryggingum, hjá öryrkjum, ellilífeyrisþegum. Stóru fjárhæðirnar eru inni í heilbrigðiskerfinu þar sem við höfum verið að auka við fjármuni verulega, inni í menntakerfinu og í samgöngum reyndar líka. Ég verð bara að spyrja þegar menn eru að segja að það séu einhverjir stórir þættir á útgjaldahlið ríkisins þar sem við ættum að stokka upp og færa fjármuni til hvort menn séu að tala um þessa stóru útgjaldaliði. Eru menn að tala um almannatryggingar eða hvað eru menn að tala um í því sambandi? (Forseti hringir.) Við erum ekki í kreppu. Við erum ekki komin í samdrátt. Við erum með mjög háa landsframleiðslu. Við erum í sterkri stöðu en við þurfum að koma súrefni út til atvinnulífsins að nýju.