150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

skatteftirlit.

[10:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Aðeins á öðrum nótum. Í meira en aldarfjórðung hefur reglulega verið vakin athygli á nauðsyn þess að uppræta augljósan tvíverknað í rannsókn á skattsvikum og efnahagsbrotum og útgáfu ákæra á því sviði. Fyrirkomulagið sem er við lýði hér á landi er seinvirkt og kostnaðarsamt og hvorki hinu opinbera né meintum sakborningum í hag. Með löngum málsmeðferðartíma vex auk þess hætta á að réttarspjöll verði og leiðir til mildari dóma en ella og jafnvel sýknunar, eins og dæmin sanna. Héraðssaksóknari gefur út ákærur eftir rannsókn en skattrannsóknarstjóri gerir það ekki eftir sínar rannsóknir, jafnvel þótt niðurstöður skattrannsóknarstjóra séu lagðar til grundvallar fyrir rannsóknir héraðssaksóknara.

Í Panama-skjölunum voru Íslendingar fjölmennir og rannsókn þeirra flókin og margþátta. Samherjaskjölin kalla á rannsókn á flóknum millifærslum og skoðun í minnst þremur löndum og svo erum við á gráum lista vegna þess að við stöndum okkur ekki í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það er augljóst að það þarf að efla rannsóknir á skattalagabrotum og sjá til þess að þær verði skilvirkari. Í september í fyrra biðu 140 mál afgreiðslu á borði héraðssaksóknara frá skattrannsóknarstjóra. Í nokkrum útgefnum skýrslum hefur verið fjallað um þá mögulegu lausn að færa ákæruvald í þessum málum til skattrannsóknarstjóra og í nýlegu þingmáli Samfylkingarinnar er það einnig lagt til.

Er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ekki sammála því að einmitt það þurfi að gera, breyta lögum þannig að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald, koma þannig í veg fyrir tvíverknað við rannsóknir sakamála og í veg fyrir óþarfafyrirhöfn og kostnað fyrir hið opinbera og óþarfa íþyngingu fyrir sakborninga?