150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

skatteftirlit.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum verið með þessi mál í skoðun, m.a. fyrir það að mál hafa tapast hjá Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem ekki var samfella í rannsókn þeirra á ólíkum stigum. Það má alveg taka undir það með hv. þingmanni að fyrirkomulag rannsóknar á þessum málum er dálítið flókið en ég hef viljað treysta á ráð okkar besta fólks í þessu efni og hef þess vegna haft að störfum sérstakan sérfræðingahóp til að leggja á ráðin um það hvernig við megum bæði bregðast við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og um leið nýta reynslu og þekkingu kerfisins hér heima til þess að auka skilvirkni í þessum efnum. Þannig myndum við bæði auka afköstin og gæta enn betur að mannréttindasjónarmiðum. Ég hef nýlega birt, fyrir u.þ.b. tveimur vikum, skýrslu starfshópsins sem áfram vinnur að þessum málum.

Ég hef lagt fyrir þingið sérstakt frumvarp um að bregðast við þeirri stöðu sem upp hefur komið eftir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins þar sem við höfum ákveðið að koma í veg fyrir að slík atvik geti endurtekið sig. En í þeirri vinnu og í skýrslunni, sem er birt á vef fjármálaráðuneytisins, er ekki verið að gera ráð fyrir því að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald eða að við störfum áfram í óbreyttu stofnanakerfi. Það er frekar verið að horfa til þess með hvaða hætti við gætum sameinað stofnanir og hvernig verkefni myndu þá flytjast á milli þeirra. En mér sýnist að það sé ágætisgangur í þessu og eins og ég hef áður boðað, og birtist í frétt sem er á vef ráðuneytisins frá því 24. janúar, vonast ég til að geta komið fram með frumvarp um þetta efni síðar á árinu.