150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræn eignarskráning.

370. mál
[11:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Þetta hefur reynst tiltölulega snúið mál og kannski flóknara en virtist við fyrstu sýn eins og oft vill verða með EES-mál sem rekur á fjörur okkar. Það er ástæða til að hrósa hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Óla Birni Kárasyni, fyrir hvernig hann hefur haldið á þessu máli og það birtist í nefndaráliti nefndarinnar ásamt breytingartillögu. Það sem stendur helst upp úr þar er að tekin er ákvörðun um að málinu ljúki ekki, það sé ekki tilbúið til að klára það, og því hyggist nefndin taka málið upp að eigin frumkvæði samhliða afgreiðslu þessa frumvarps með það að markmiði að leggja fram nýtt frumvarp til að laga málið.

Ég taldi mjög mikilvægt að þetta yrði samþykkt svoleiðis að málið færi ekki óbreytt í gegn og studdi það eftir 2. umr. en hvað varðar málið í heild er það, eins og kemur fram í nefndaráliti, ekki tilbúið og því mun ég ekki greiða atkvæði um málið núna.