150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norræna ráðherranefndin 2019.

538. mál
[12:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu minni sem samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2019. Skýrslum um sama efni fyrir árin 2017 og 2018 var dreift síðasta haust og eru þær sömuleiðis til umfjöllunar hér. Það er mér ánægjuefni að hefja þessa umræðu. Formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni lauk um áramót en þá tóku Íslendingar við formennsku í Norðurlandaráði þar sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir er forseti og hv. þm. Oddný Harðardóttir varaforseti. Ég óska þeim báðum, og Íslandsdeildinni allri, góðs gengis í því mikilvægi verkefni.

Norðurlandasamstarfið er okkur Íslendingum einstaklega mikilvægt. Norðurlöndin eru okkar annar heimavöllur þar sem við getum starfað og stundað nám, nánast hindrunarlaust, og njótum sömu réttinda og heimamenn. Þetta hafa tugþúsundir Íslendinga nýtt sér í tímans rás. Allflest ef ekki öll eigum við ættingja og vini sem hafa farið til náms eða starfa á Norðurlöndunum og flutt heim dýrmæta þekkingu og reynslu. Í dag búa þannig um 30.000 Íslendingar í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, auk Færeyja, Grænlands og Álandseyja.

Sé litið til viðskiptahagsmuna eru Norðurlönd í heild sinni annað af tveimur stærstu viðskiptalöndum Íslands þegar litið er til inn- og útflutnings á vörum og þjónustu. Norðurlöndin eru samanlagt sjónarmun á eftir Bandaríkjunum en talsvert stærri en Bretland. Það munar um minna og við skyldum ekki gleyma mikilvægi þess að gæta líka að traustum og stöðugum nærmörkuðum þegar sótt er fram um víða veröld.

Menningarlega liggja rætur okkar í hinum frjóa jarðvegi Norðurlanda þar sem listir og skapandi greinar blómstra sem aldrei fyrr. Síðast en ekki í síst felst í norrænni samvinnu öflug pólitísk fótfesta. Það skiptir ekki síst máli nú á tímum þegar það gustar svo sannarlega um á alþjóðavettvangi og hriktir í mörgum stoðunum.

Ég nefni hér í upphafi þennan almenna ávinning af norrænni samvinnu vegna þess að ekkert af þessu er sjálfgefið. Þvert á móti er Norðurlandasamstarfið niðurstaða markvissra pólitískra ákvarðana síðustu ár og áratugi um að Norðurlöndin séu sterkari saman þegar þau mynda eina heild fyrir alla íbúa svæðisins.

Það er mikilvægt að við sem sitjum á Alþingi höfum á þessu skilning og tökum virkan þátt í samstarfinu. Þannig gætum við hagsmuna Íslands og nýtum ný tækifæri. Við þurfum líka að hlúa að hinu samnorræna, jafnvæginu sem þarf að gæta að í samstarfi margra landa. Samstarf þarf að gagnast öllum, ekki bara sumum, og þess vegna hefur norræn samvinna verið svo langlíf og árangursrík.

En víkjum nú að skýrslunni sem hér liggur fyrir. Eins og ég nefndi áðan gegndi Ísland formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á liðnu ári og er óhætt að segja að árið hafi verið bæði annasamt og viðburðaríkt. Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands, Gagnvegir góðir, er sótt í Hávamál. Það átti vel við því að hingað lá aldeilis leiðin. Alls voru haldnir 24 ráðherrafundir á formennskuárinu, að meðtöldum tveimur fundum forsætisráðherra Norðurlandanna, og fóru flestir þeirra fram á Íslandi.

Embættismannanefndir og sérfræðingahópar hittust á fundum í tugatali og einnig fóru fram 17 norrænar eða alþjóðlegar ráðstefnur og málþing. Gróft áætlað komu um 3.500 manns til Íslands á formennskuárinu til að taka þátt í þessum fundum og viðburðum. Formennskuverkefni Íslands voru á þremur málefnasviðum, um ungt fólk, sjálfbæra ferðaþjónustu og málefni hafsins. Alls er í raun um að ræða níu samnorræn formennskuverkefni, þrjú á hverju þessara sviða. Þau eru til þriggja ára, fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og eru með um 275 milljónir íslenskra króna á ári hverju. Verkefnin eru komin vel á veg og má nánar lesa um innihald þeirra og markmið í skýrslunni.

Önnur áhersla í formennsku Íslands var að beina sjónum í auknum mæli að málefnum vestnorræna svæðisins. NAUST-áætlunin var samþykkt en það er ný stefnumótun um aukið samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Vestur-Noregs, einkum í atvinnu- og byggðamálum. Þetta er í fyrsta skipti sem Norræna ráðherranefndin setur sér stefnu um málefni vestnorræna svæðisins. Þegar hafa verið tryggðir fjármunir, um 45 millj. kr., í fyrstu verkefni undir hatti NAUST, stefnumótunar Norður-Atlantshafssvæðisins, og mun Norræna Atlantshafsstofnunin í Færeyjum, NORA, hafa umsjón með þeim.

Íslenska formennskan beindi sömuleiðis sjónum að samstarfi við Bretland og Skotland. Þannig funduðu samstarfsráðherrar Norðurlanda í Edinborg í september sl. og hittu þar skoska ráðherra. Ég er þeirrar skoðunar að norrænt samstarf við Skotland og Bretland í heild sinni eigi einungis eftir að aukast. Bretland eftir Brexit er í óðaönn að skilgreina samskipti sín við önnur Evrópuríki og margoft hefur komið fram áhugi Breta á auknu samstarfi við Norðurlöndin. Ekki síst gildir þetta um Skotland og raunar Írland líka. Norðurlöndin gerðu að mínu mati vel í því að auka svæðisbundna samvinnu við öll þessi lönd.

Herra forseti. Stærsta verkefnið á formennskuárinu var vinna við nýja framtíðarsýn fyrir Norrænu ráðherranefndina. Sú vinna hófst formlega í blálokin á formennsku Svíþjóðar í lok árs 2018 en var svo til lykta leidd undir forystu Íslands um mitt síðasta ár. Eftir snarpa samningavinnu náðist samstaða um það sameiginlega markmið að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Forsætisráðherrar Norðurlandanna samþykktu þá framtíðarsýn á fundi sínum í Reykjavík í ágúst sl.

Í þessu felst að Norðurlöndin vilja nýta styrkinn í norrænu samstarfi annars vegar til að verða sjálfbær samfélög og hins vegar að halda áfram að vera ein heild þar sem fólk og fyrirtæki flæða auðveldar milli landa og að áfram verði hlúð að sameiginlegum gildum og samstöðu Norðurlanda. Þar skiptir stafræn væðing miklu máli.

Sjálfbærni og loftslagsmál eru í forgrunni framtíðarsýnarinnar og hefur Norræna ráðherranefndin sett sér þrjú forgangsmarkmið sem öll ráðherraráð og allar stofnanir eiga að vinna að á næstu fjórum árum. Það eru markmiðin um græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Þau fléttast saman og snúast öll um að ýta undir græna umbreytingu samfélaga okkar, til að mynda með öðruvísi og betri orkunotkun, með þróun og innleiðingu grænna lausna í öllu sem við gerum og með áherslu á menntun, rannsóknir og nýsköpun. Þessi vinna er á fullri ferð. Á þriðjudaginn sat ég fyrsta fund norrænna samstarfsráðherra á þessu ári þar sem samþykkt voru drög að aðgerðaáætlunum til næstu fjögurra ára þar sem gert er ráð fyrir um 65 nýjum norrænum samstarfsverkefnum og verulega auknu fjármagni í sjálfbærni og loftslagsmál sem fæst með því að forgangsraða í núverandi starfsemi og að einhverju leyti að flytja fjármuni milli málaflokka.

Herra forseti. Ég hef hér stiklað á stóru um helstu málefni, verkefni og viðburði á árinu 2019 í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar. Samantekið má segja að niðurstöður ársins séu í fyrsta lagi að mikil og stöðug virkni var í öllu starfi og mikill kraftur, í öðru lagi að þessi þrjú formennskuverkefni Íslands komust vel á veg og lofa öll góðu, í þriðja lagi að áherslan á vestnorræna samstarfið náðist fram, m.a. með samþykkt NAUST, og í fjórða lagi, síðast en alls ekki síst, var í formennsku Íslands samþykkt ný framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til næstu tíu ára, til 2030. Þessi listi gæti verið mun lengri því að mikil vinna átti sér stað í öllum fagráðherraráðum sem of langt mál er að rekja hér og vísast þá í skýrsluna þar sem nánar má lesa um það góða starf.

Ég vil að lokum þakka öðrum ráðherrum fyrir þeirra framlag til norræns samstarfs á liðnu ári, Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins, og ekki síst starfsfólki ráðuneytanna sem borið hefur hitann og þungann af hinni daglegu vinnu. Ég vil einnig þakka þeim fjölmörgu öðrum sem vinna ötullega í norrænu samstarfi á hverjum degi, t.d. starfsfólki Norræna hússins og Norræna félagsins, og þeim fjölmörgu sérfræðingum okkar um allt land sem taka þátt í norrænum verkefnum. Allt þeirra starf stuðlar að því að flytja heim og byggja upp þekkingu. Með virku framlagi og þátttöku treystum við líka stöðu okkar meðal Norðurlandanna. Það kemur Íslandi sannarlega til góða. Ég hlakka til umræðunnar hér í dag en vísa að öðru leyti til skýrslunnar.