150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2019.

554. mál
[15:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið, ég held að hann hafi farið nokkuð vel yfir þetta verkefni sem er einmitt að samtvinna fríverslunarsamninga og koma inn ákvæðum um mannréttindi, lýðræði og jafnvel loftslagsmál og sjálfbærni. Það er vissulega flókið og kannski líta margir svo á að fríverslunarsamningar eigi ekki að snúast um það. Engu að síður tel ég að fríverslunarsamningar séu einmitt ótrúlega öflugt tæki til að þrýsta á um ákveðnar umbætur í viðkomandi ríkjum sem við viljum eiga verslun og viðskipti við, eins og hv. þingmaður kom inn á, ótrúlega öflugt tæki til að ýta á slíkt. Eins og hv. þingmaður kom inn á er það kannski list hins ómögulega að tvinna þessi sjónarmið saman en ég hef fulla trú á því að íslenskir þingmenn geti áorkað miklu, enda kom það í ljós að sá málflutningur sem hafður var uppi hér í þingsal Alþingis, þegar kom að því að fullgilda fríverslunarsamning við Filippseyjar, vakti gríðarlega mikla athygli, rataði inn í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og fékk hörð viðbrögð á Filippseyjum og varð m.a. til þess að blaðamenn voru leystir úr haldi. Það er því ýmsu hægt að fá áorkað í þessu sambandi. Svo er það sjálfbær þróun sem ég vil gjarnan heyra nánar um í máli formanns Íslandsdeildarinnar, hvernig þingmenn þar sjá fyrir sér að hægt sé að stuðla að sjálfbærri þróun með gerð fríverslunarsamninga í náinni framtíð.