150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Evrópuráðsþingið 2019.

531. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. ÍÞER (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins flyt ég hér ársskýrslu landsdeildarinnar fyrir árið 2019. Mig langar til að byrja á því að ræða almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið, kannski sérstaklega af því að á þessu ári eru 70 ár frá því að Ísland gerðist aðildarríki að Evrópuráðinu.

Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 af tíu Vestur-Evrópuríkjum. Aðildarríkin eru nú 47 talsins með samtals um 800 milljónir íbúa og mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með það að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Mannréttindasáttmálinn er þeirra þekktastur og á honum grundvallast Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn tekur til meðferðar kærur frá aðildarríkjum, einstaklingum og hópum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmálans og eru dómar hans bindandi að þjóðarétti fyrir viðkomandi ríki. Það er kannski vert að hafa í huga nú þegar íslenska ríkið hefur staðið í málsvörn fyrir yfirdeild Mannréttindadómstólsins í Strassborg síðustu daga.

Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits.

Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007.

Framkvæmdavald Evrópuráðsins er í höndum ráðherranefndarinnar, en í henni sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna eða fastafulltrúar þeirra í Strassborg. Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga aðildarríkjanna en einnig hafa sveitar- og héraðsstjórnir aðildarríkjanna samráð á einni ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna á ári.

Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Á Evrópuráðsþinginu eiga 324 þingfulltrúar sæti og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október í Strassborg í Frakklandi. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.

Hlutverk Evrópuráðsþingsins felst einkum í því að eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar, hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á aðildarríki um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á og sömuleiðis að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.

Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig afskaplega oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúlsamningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins. Istanbúlsamningurinn tók gildi árið 2014 og Ísland fullgilti hann í apríl 2018.

Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

En víkjum þá að því helsta sem var á baugi í Evrópuráðsþinginu á síðasta ári. Stærsta mál Evrópuráðsþingsins á árinu 2019 var sem fyrr samskipti þingsins og Evrópuráðsins við Rússland. Árið 2014 var landsdeild Rússlands svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum í Úkraínu og innlimunar Krímskaga. Hið sama gerðist þegar Rússar sendu landsdeild sína á Evrópuráðsþingið árið 2015 og höfðu Rússar ekki sent landsdeild síðan. Rússar höfðu því ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins í fjögur ár og þar með ekki átt þátt í kjöri dómara við Mannréttindadómstól Evrópu eða framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Sumarið 2017 tilkynntu Rússar enn fremur að þeir hygðust halda eftir aðildargreiðslum sínum til stofnana Evrópuráðsins þar til þeim yrðu tryggð full þátttökuréttindi í öllum stofnunum ráðsins, þar á meðal Evrópuráðsþinginu. Í upphafi árs 2019 tilkynnti framkvæmdastjóri Evrópuráðsins um samdrátt í starfi Evrópuráðsins til að bregðast við breyttum fjárráðum.

Á júnífundi Evrópuráðsþingsins voru samþykktar breytingar á þingsköpum sem kveða á um að ekki sé hægt að svipta landsdeildir atkvæðisrétti, kosningarrétti, málfrelsi eða þátttökuréttindum í kjölfar athugasemda við kjörbréf. Vísað var til þess að þátttökuréttur aðildarríkja Evrópuráðsins á þinginu væri tryggður í stofnskrá ráðsins. Í kjölfarið kynntu Rússar nýja landsdeild og þrátt fyrir að gerðar hafi verið athugasemdir við kjörbréfin voru þau samþykkt án skilyrða eða sviptingar réttinda. Við samþykktina kallaði þingið eftir því að Rússar framfylgdu fyrri ályktunum þingsins um afnám innlimunar Krímskaga og hæfu störf með eftirlitsaðilum Evrópuráðsins.

Líkt og fyrri ár voru málefni flóttamanna ofarlega á baugi í starfi Evrópuráðsþingsins. Meðal ályktana sem samþykktar voru á árinu voru ályktun um hlutverk þróunarsamvinnu við að koma í veg fyrir fólksflutninga, ályktun um stöðu flóttafólks á grísku eyjunum, ályktun um að koma í veg fyrir ofbeldi gegn farand- og flóttabörnum og misnotkun þeirra og ályktun um lagalega stöðu fólks á flótta undan afleiðingum loftslagsbreytinga. Á haustfundi Evrópuráðsþingsins var haldin sérstök umræða um björgun mannslífa á Miðjarðarhafi. Í ályktun þingsins var starfsemi frjálsra félagasamtaka á þeim vettvangi fagnað en ítrekað að það væri á ábyrgð aðildarríkja Evrópuráðsins að koma í veg fyrir drukknanir fólks á flótta á Miðjarðarhafi.

Liliane Maury Pasquier, forseti Evrópuráðsþingsins, beitti sér mikið fyrir jafnréttismálum á árinu. Það er alveg ljóst eftir hennar þingforsetatíð að það skiptir máli að hafa konu en ekki síst femínista á þingforsetastóli. Þetta var í annað skipti sem forseti þingsins er kona. Á stjórnarnefndarfundi í mars var sérstök umræða um Istanbúlsamninginn, sem kveður á um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, en innleiðing samningsins hefur mætt andstöðu í nokkrum Evrópulöndum. Í apríl samþykkti þingið ályktun um afnám kynjamismununar og kynferðislegrar áreitni í þjóðþingum. Ályktunin átti rætur sínar að rekja til rannsóknar á kynferðislegri áreitni meðal þingkvenna á Evrópuráðsþinginu og í Alþjóðaþingmannasambandinu á árinu 2018. Maury Pasquier þingforseti hélt á lofti vitundarvakningu, sem hún kynnti fyrst í kjölfar niðurstöðu rannsóknarinnar, en hún ber yfirskriftina „Ekki í mínu þingi“ (#NotInMyParliament).

Árið 2019 fjallaði Evrópuráðsþingið í fyrsta skipti um framfylgd Íslands á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu. Var það gert í sérstakri úttekt á framfylgd skuldbindinga Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Þetta var, eins og áður segir, í fyrsta skipti sem eftirlitsnefnd gerir slíka úttekt en árið 2014 var reglum breytt á þann veg að öll aðildarríki Evrópuráðsins sæta nú eftirliti með framfylgd skuldbindinga sinna með mislöngu millibili þó. Í skýrslunni um Ísland kom fram að Ísland framfylgir skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu að mestu leyti. Í ályktun sinni benti þingið á að vegna smæðar landsins hefðu Íslendingar í mörgum tilvikum valið að láta óformlegar reglur nægja frekar en að setja lög. Afleiðingarnar væru að lýðræðislegar stofnanir landsins væru veikar og lytu ekki nægilegu aðhaldi. Evrópuráðsþingið kallaði eftir umbótum til að ráða bug á þessu. Einnig var kallað eftir því að farið yrði eftir tilmælum úr fjórðu og fimmtu úttekt ríkjahóps gegn spillingu, GRECO-hópsins, m.a. með því að vinna gegn hagsmunatengslum ráðamanna, endurskoða reglur um atvinnu eftir brotthvarf úr ábyrgðarstöðum og að tryggja sjálfstæði löggæslustofnana gagnvart stjórnvöldum. Einnig var mælst til þess að sett yrði á fót mannréttindastofnun og að sett yrðu heildstæð lög um bann við hvers konar mismunun.

Sú sem hér stendur talaði fyrir hönd flokkahóps vinstri manna í þingumræðunum um úttektarskýrslu Evrópuráðsþingsins á Íslandi og tók ég tillögum eftirlitsnefndar hvað varðar Ísland fagnandi. Ég lýsti hins vegar yfir vonbrigðum mínum með það að Alþingi hefði ekki lokið lögfestingu nýrrar stjórnarskrár og benti á að vilji þjóðarinnar hefði verið skýr í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2011. Það væri rétt að íslensk stjórnvöld þyrftu að þróa heildstæða stefnu til að takast á við spillingu og hagsmunatengsl í stjórnsýslunni. Þrátt fyrir að Ísland væri oft álitið fyrirmynd annarra ríkja í jafnréttismálum væri enn á brattann að sækja í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og þar væri sannarlega þörf á umbótum í löggjöf sem hefði þarfir fórnarlamba að leiðarljósi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hv. þingmaður í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, tók líka til máls í umræðum um skýrslu eftirlitsnefndar um Ísland og taldi skýrsluna vera heldur of jákvæða. Hún benti á að frá því að skýrslan var gerð hefðu komið fram fleiri vísbendingar um spillingu á Íslandi. Hún sagði frá upptökum af samtölum þingmanna á Klausturbar þar sem rætt hefði verið um samkomulag um skipan sendiherra árið 2014 og benti á að þrátt fyrir að í skýrslunni væri lýst áhyggjum af því að réttað hefði verið yfir Geir H. Haarde fyrir Landsdómi hefði Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að réttarhöldin hefðu ekki brotið gegn mannréttindasáttmálanum.

Ég vil að lokum í þessari ræðu minni um ársskýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins nota tækifærið og nefna það hversu vel við höfum staðið okkur í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, raunar svo að eftir er tekið. Það er virkilega gaman að vera formaður landsdeildar sem hefur svo mikinn áhuga á þessari merkilegu stofnun og þeim gildum sem hún stendur fyrir; að efla og styrkja mannréttindi í aðildarríkjum og virða lög og reglur til að tryggja lýðræðislegar leikreglur. Það er ekki sjálfgefið að í lítilli þingnefnd á þessu stóra og mikilvæga þingi í þessari merku stofnun séu tveir þingmenn sem gegni mikilvægum trúnaðarstörfum, annars vegar sem einn af varaforsetum þingsins og sem nefndarformaður. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir hennar góðu og öflugu störf sem formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins en þeirri stöðu hefur hún gegnt í síðustu tvö ár. Ég vil líka þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að standa sig með mikilli prýði í þau skipti sem hann hefur komið í þingið sem varamaður og hversu vel hann hefur nýtt þau skipti. Að lokum vil ég þakka Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildarinnar, fyrir hennar góðu störf og fagmennsku í hvívetna.

Ég vil svo hvetja ykkur, bæði þingmenn Alþingis og sömuleiðis annað áhugafólk um Evrópuráðið, að kynna ykkur í hvívetna störf og starfsemi Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins í ársskýrslunni en þar má sjá hversu öflug stofnun þetta er, enda ein mikilvægasta stofnunin sem snýst um mannréttindi, lýðræði, og lög og reglur sem Ísland á aðild að.