150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Alþjóðaþingmannasambandið 2019.

536. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. ÍAÞ (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa notað ensku í hluta ræðu minnar hér áðan. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður talar um, við eigum að halda því á lofti sem vel var gert því að þetta var alveg fordæmalaust. 90% hlutabréfamarkaðarins hurfu á Íslandi, atvinnuleysishlutfallið þrefaldaðist, gjaldmiðillinn okkar féll um 50%. Verðbólgan fór upp í 18% og vextirnir fóru upp. Við höfðum ekki misst jafn marga einstaklinga úr landi frá því að fólk fór til Kanada og Ameríku á 19. öld. Það var rosalega mikið umrót og slæmir tímar fyrir mjög marga og allt samfélagið. Ríkissjóður var rekinn með 214 milljarða kr. halla fyrsta árið, síðan 130 milljarða halla og svo náði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að minnka hallann, við skulum líka halda því til haga. Svo komu aðrar ríkisstjórnir og tóku líka þátt í uppbyggingunni. Kreditið á heima víða hvað þetta varðar og ekki síst hjá fólkinu í landinu. Þetta eru allt mikilvæg skref sem við stigum. Þetta var auðvitað sársaukafullur tími í sögu landsins. Ekki má gleyma því að við þurftum líka að fá hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, vorum fyrsta vestræna ríkið sem þurfti að sækja sér aðstoð þaðan síðan Bretar gerðu það 1978, minnir mig. Við gerðum það svo sem ekki ein, við fengum líka aðstoð frá norrænum ríkjum og Pólverjum og Færeyingum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði einmitt varðandi Ísland og ætla ég að reyna að þýða það yfir á íslensku, þetta er á ensku hér, með leyfi forseta: Ísland er nú tekið sem dæmi um hvernig yfirvinna megi djúpa efnahagslega kreppu án þess að — og nú þori ég ekki að nota ensku með þennan forseta á bak við mig — raska of mikið hinni félagslegu skiptingu þjóðarinnar, eitthvað svoleiðis. (Forseti hringir.)

Þetta er alþjóðleg stofnun sem bendir á það sem vel er gert og við eigum svo sannarlega að halda því á lofti. Ég tek undir það.