151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

rekstur hjúkrunarheimila.

[13:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svo að allrar sanngirni sé gætt þá held ég að rétt sé að benda hv. þingmanni á að halda því til haga að mörg skref hafa verið stigin á þessu kjörtímabili varðandi hjúkrunarheimili. Við höfum lagt í sérstök tilraunaverkefni sem lúta að sveigjanlegri dagdvöl. Við höfum fjölgað dagdvalarrýmum og sérhæfðum dagdvalarrýmum. Við höfum lagt aukna áherslu á heimahjúkrun sem við höfum byggt upp með myndarlegum hætti, m.a. í samstarfi við Reykjavíkurborg. Þessi skref hafa verið stigin og þau eru öll mikilvæg í stóru heildarmyndinni. Það dugar ekki, virðulegur forseti, að nefna einhverja tölu. Ég held að við eigum það sameiginlegt, ég og hv. þingmaður, að vera vinir ríkissjóðs. Þess vegna dugar ekki að nefna bara einhverja tölu heldur þarf að liggja fyrir greinargóð greining og grundvöllur þess þegar við ákveðum að greiða fjármagn úr ríkissjóði en ekki tala sem einhverjum dettur í hug. Ég held að við ættum að vera sammála um að þarna þarf að vinna vinnuna vel og af nákvæmni.