151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

atvinnuleysisbótaréttur.

[13:15]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur auðvitað verið að fylgjast með stöðu þessa faraldurs og verið að vinna út frá því að á einhverjum tímapunkti færum við að sjá ferðaþjónustuna komast af stað. Ástæða þess mikla atvinnuleysis sem er hér á landi er einkum og sér í lagi sú hversu stór þáttur ferðaþjónustan er í hagkerfi okkar Íslendinga. Í máli mínu áðan talaði ég bæði um framfærslu og virkni. Ég tel að okkur sem samfélagi beri skylda til að tryggja framfærslu þeirra einstaklinga sem hafa verið án atvinnu í 30 mánuði og aðstoða þá við það, hvort sem það er gert í samstarfi ríkis og sveitarfélaga eða eingöngu af ríki eða eingöngu af sveitarfélagi. Það er samstarfið og samtalið á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga sem getur náð samkomulagi um það við einstaklinginn. Síðan er líka mikilvægt að koma einstaklingnum í virkni og það er einmitt eitt af grunnverkefnum Vinnumálastofnunar, sem er að sýsla með mál þessara einstaklinga í samstarfi við þá, að aðstoða þá við að halda sér í virkni. Við vitum að það er áskorun fyrir þá sem ekki hafa verið í vinnu í 900 daga að komast af stað aftur. Það er það sem við erum að reyna að ná utan um í aðgerðum, (Forseti hringir.) þ.e. að geta tryggt bæði framfærslu og virkni. Ég hlakka gríðarlega til þegar við getum kynnt slíkar aðgerðir.