151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

málefni lögreglu.

[13:27]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Slíkar vangaveltur eru einmitt mjög mikilvægar þegar við skoðum þessi mál. Varðandi það hvort þetta sé til skoðunar þá er þetta bara nýlega komið upp, þær vangaveltur sem vitnað er til í viðtali við ríkislögreglustjóra um afbrotavarnahlutverkið, útvíkkun á ákveðnum heimildum vegna gæsluvarðhalds og fleira. Það hefur ekki verið forgangsatriði til að geta brugðist við þeirri stöðu sem hefur verið uppi undanfarið. Við höfum eflt ýmsa aðra þætti til að geta brugðist við skipulagðri brotastarfsemi. Má þar nefna m.a. löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti, eflingu deildarinnar sem tekur á þeim málum sem og sérstakan hóp sem er að vinna að því að lögreglan vinni betur saman í því að geta varnað skipulagðri brotastarfsemi. Það hafa allt verið forgangsatriði sem og að forgangsraða fjármunum í búnað fyrir lögregluna til að efla getu hennar til að takast á við þessa starfsemi. En það þarf auðvitað að skoða í stóru samhengi.

Varðandi þær lagabreytingar og hugmyndir sem lögreglan hefur sett fram þá er það bara á byrjunarstigi og er í ráðuneytinu til skoðunar og þarfnast meiri umræðu. Það þarf alltaf að treysta því að almennir borgarar geti verið fullvissir um sín réttindi, þekki sín réttindi og að með þeim réttindum sé virkt eftirlit. Ég minni á frumvarp sem er til umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um eflingu eftirlits með lögreglu en líka auðvitað að friðhelgi einkalífs sé virt. Á sama tíma viljum við vera með öfluga löggæslu sem getur tekist á við fjölbreytt verkefni eins og flókna skipulagða glæpastarfsemi sem getur leitt til ýmissa og fjölbreyttra brota þar sem öll lögreglan þarf að vinna saman sem heild. En engar breytingar eru áætlaðar á vopnaburði. Aðalsmerki íslensku lögreglunnar er (Forseti hringir.) að hún er ekki með vopn. En við erum með öfluga sérsveit og næga þekkingu til að takast á við þessi mál.