151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

greining leghálssýna.

[13:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Staðan í málefnum skimunar við krabbameinum var ekki góð. Þátttakan hafði farið minnkandi, hún var undir 70% og af því höfðu heilbrigðisyfirvöld og raunar Krabbameinsfélagið líka áhyggjur. Af þeim sökum voru leghálskrabbamein að greinast á alvarlegri stigum en áður. Ég vil rifja það upp með hv. þingmanni að staðan var þannig að svartíminn hjá Krabbameinsfélagi Íslands var á tímabilum upp í fjóra mánuði, sem var rætt í öllum fjölmiðlum hér í nóvember. Vegna mistaka í haust sem leið þurfti að endurskoða tæplega 5.000 sýni. Það var raunveruleikinn. Staðan sem við byggjum á er sú að við höfum tilteknar leiðbeiningar frá skimunarráði og embætti landlæknis um það hvernig sýnatöku á að vera háttað, þ.e. skimuninni sjálfri. Sýnin verði tekin á heilsugæslustöðvum um allt land, þannig hefur það verið frá síðustu áramótum, og af stofulæknum. Þannig að aðgengið er betra, þátttakan verður meiri og það er ódýrara. Nú kostar þetta 500 kr. sem áður kostaði næstum því 5.000 kr. Sýnin verða, í samræmi við verkefnið og öryggið í rannsóknunum, rannsökuð á vottaðri rannsóknarstofu sem greinir núna sýni frá Stokkhólmi, frá Gautaborg, frá Skáni auk sýna frá Danmörku. Þetta tryggir rétta greiningu sem er mikilvægasta hagsmunamál okkar allra. Svarið berst samkvæmt samningi innan þriggja vikna. Þannig verður það.

Hv. þingmaður spyr hvernig við byggjum traustið upp aftur. Við byggjum það upp með því að þjónustan sé góð. Nú hefur greiningarstöðum fyrir konur á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 19 frá áramótum. Það eru 19 fleiri staðir þar sem konur (Forseti hringir.) geta farið í skimun vegna leghálskrabbameina þannig að ég fullyrði það að (Forseti hringir.) staðan verður ódýrari þjónusta, aðgengilegri þjónusta og öruggari þjónusta.