151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.

36. mál
[13:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Samfylkingin styður þetta mál og það er margt í því mjög til bóta. Því miður hefur myglan verið samferða okkur Íslendingum í gegnum aldirnar. Það sem áður voru kölluð innanmein eða jafnvel móðursýki í skáldsögum og frásögnum fyrri alda var auðvitað bara afleiðing af vondu og lélegu húsnæði. Síðan hefur þetta einhvern veginn færst til aðeins betri vegar en er enn þá áberandi. Til að ná tökum á þessu þurfum við fyrst og fremst að beina sjónum okkar að því að auka gæði bygginga. Það að búa gjarnan við háa vexti og óstöðuga krónu hefur því miður leitt húsbyggjendur út í það að spara niður í hörgul. Ef við ætlum að ná utan um þennan vanda skulum við búa húsbyggjendum á Íslandi umhverfi sem gerir þeim kleift að byggja gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Það held ég að við myndum gera með stöðugri og betri gjaldmiðli.