151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

fiskeldi, matvæli og landbúnaður.

549. mál
[13:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 916, mál nr. 549. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar, sem lýtur að einföldun regluverks. Frumvarpið er samið í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og áhersla lögð á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Í samræmi við þær áherslur hefur í ráðuneyti mínu verið útbúin þriggja ára aðgerðaáætlun sem lýtur að einföldun regluverks. Framgangur aðgerðaáætlunarinnar er forgangsverkefni í ráðuneytinu og hefur verið unnið ötullega að því verkefni undanfarin ár.

Fyrsti áfangi sneri að breytingum á ýmsum lögum um matvæli og var frumvarp þess efnis lagt fram á 150. löggjafarþingi og samþykkt þann 17. desember árið 2019. Í þeim fyrsta áfanga fólst einnig afnám 1.242 reglugerða á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í öðrum áfanga verksins voru lögð fram tvö frumvörp í apríl 2020, annars vegar um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla og hins vegar um breytingu á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði. Með þeim lögum voru 33 lagabálkar felldir brott, nefndum fækkað og stjórnsýsla einfölduð.

Það frumvarp sem mælt er fyrir í dag er liður í þriðja áfanga fyrrgreindrar aðgerðaáætlunar. Frumvarpið er afrakstur víðtæks samráðs sem haft var við stofnanir ráðuneytisins. Þá voru drög að frumvarpinu einnig birt í samráðsgátt stjórnvalda. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum á sviði matvæla, landbúnaðar, dýravelferðar, sjávarútvegs og fiskeldis sem allar miða að því að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings og auka skilvirkni innan íslenskrar stjórnsýslu.

Áhrif frumvarpsins felast einkum í því að verkefni verða ýmist flutt til innan stjórnsýslunnar, einfölduð eða felld niður. Þá verður álögum létt af atvinnulífinu með einföldun á regluverki í starfsumhverfinu og með niðurfellingu rekstrarleyfisskyldu í ákveðnum tilfellum. Breytingarnar eiga það sammerkt að stuðla að einföldun regluverks og stjórnsýslu.

Fyrst má nefna að með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á regluverki um fiskeldi þar sem komið er til móts við minni aðila í landeldi. Meginmarkmið þeirra breytinga er að draga úr kostnaði þessara aðila og stuðla að einfaldari stjórnsýslu, m.a. er lagt til að ráðherra hafi heimild til að kveða á um í reglugerð að tiltekin starfsemi verði skráningarskyld í stað þess að vera rekstrarleyfisskyld. Skilyrði eru að hámarkslífmassi í landeldi sé ekki meiri en 20 tonn á hverjum tíma og að starfsemin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og lögum um innflutning dýra og náttúruverndarlögum sem snúa einnig að því að einfalda leyfisveitingaferli. Lagt er til að leyfi sem Matvælastofnun gefur út til fóðurfyrirtækja sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur, framleiða lyfjablandað fóður eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra verði ótímabundin. Fjöldi útgefinna starfsleyfa er nú um 100 og eru þau gefin út til 12 ára í senn. Mun þetta bæði stuðla að aukinni skilvirkni og leiða til hagræðingar með lækkun kostnaðar fyrir eftirlitsaðila.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um innflutning dýra og lögum um náttúruvernd sem snúa að einföldun og samræmingu leyfisveitingakerfis við innflutning dýra. Breytingarnar taka mið af tillögum frá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun og miða að því að samþætta stjórnsýslu, auka skilvirkni og einfalda ferla með því að umsækjendur þurfi að sækja um leyfi til innflutnings dýra hjá einni stofnun í stað tveggja. Jafnframt er lagt til með frumvarpinu að afnumin verði milliganga ráðuneytisins í vissum tilvikum en breytingarnar eru gerðar í því skyni að gera stjórnsýsluna skilvirkari. Þar má t.d. nefna að lagt er til að ákvæði falli brott sem kveða á um að ráðuneytið og ráðherra skuli staðfesta fjallskilasamþykktir og samþykktir um búfjárhald. Breytingarnar eru gerðar í því skyni að stytta boðleiðir þar sem núverandi milliganga ráðuneytisins þykir til þess fallin að flækja og tefja ferla innan stjórnsýslunnar. Þá er lagt til að ekki verði kveðið á um að svokölluð hestavegabréf verði gefin út af Bændasamtökunum svo hægt sé að fela öðrum aðilum slíka umsýslu. Einnig er lagt til að ráðgjafarnefnd um útflutning hrossa verði lögð niður þar sem nefndin hefur ekki fundað um árabil og engin virkni verið í starfi hennar.

Að lokum mætti nefna að lagt er til að ráðherra skipi fagráð um velferð dýra í stað þess að staðfesta skipun þess, að stjórn Matís verði skipuð fimm fulltrúum í stað sjö og styrkt verði heimild til sérgreiningar greiðslumarks ábúenda og leiguliða. Aðrar breytingar frumvarpsins snúa að því að auka skilvirkni, einfalda ferla, t.d. með tilfærslu verkefna og aukinni samvinnu innan stjórnsýslunnar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni frumvarpsins. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.