151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í umræðuna. Ég verð að gjalda varhuga við þeirri aðferð sem lögð er upp í tillögunni sem hér kemur fram. Það er sannarlega hægt að taka undir margt sem kemur fram í greinargerðinni, að það vanti meiri peninga inn í velferðarkerfið, en ég held að þetta sé ekki leiðin til þess. Kerfið sem við byggjum á í dag er í rauninni samkomulag stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins frá 1970, ef ég man rétt, og ég held að það væri ekki ráðlegt ef ríkið ætlaði einhliða að fara að taka ákvörðun um að breyta því. Styrkur sjóðanna til fjárfestinga myndi minnka og þar með geta þeirra til að afla sér tekna til að auka lífeyrisgreiðslur til þeirra sem þurfa á þeim að halda þegar þeir fara á lífeyrisaldur. Með þessu er í rauninni verið að taka lán í skatttekjum framtíðarinnar, eins og ég sé þetta, og við vitum öll að tekjur sem ríkissjóður hefur á hverjum tíma, eða sveitarfélögin, því að væntanlega myndi hluti af þeim greiðslum renna til þeirra, verða ekki notaðar tvisvar.

Íslenska lífeyriskerfið er nefnilega dálítið sérstakt að mörgu leyti. Það er ekki gegnumstreymiskerfi, sem er afar mikilvægt og er á góðri leið með að verða sjálfbært. Á næstu 10–15 árum verður lífeyriskerfið okkar stórt séð sjálfbært og það skiptir verulega miklu máli, sérstaklega þegar horft er til þeirra lýðfræðilegu breytinga sem eru að verða á samfélaginu. Við munum ekki í sama mæli og aðrar þjóðir lenda í þeim vanda þegar fólk fer á lífeyrisaldur að þurfa að nota skatttekjur, eins og sum samfélög horfa fram á, tveggja vinnandi manna til að standa undir öllum lífeyrisgreiðslum hvers einstaklings. Við munum í rauninni standa á okkar eigin grunni og það er á þeim grundvelli sem aðilar vinnumarkaðarins hafa náð samkomulagi um þetta kerfi.

En það er annað sem er mikilvægt að hafa í huga, að með þeirri aðferð sem verið er að tala um myndu í mörgum tilfellum skattgreiðslur vegna lífeyrisgreiðslna aukast ef eitthvað er, vegna þess að í mörgum tilfellum myndu greiðslurnar skattlagðar við inngreiðslu lenda í efri þrepum skattkerfisins en líkurnar, sérstaklega hjá þeim lægst launuðu, á að þær lendi þá frekar í neðri þrepunum eru miklu meiri ef þær eru ekki greiddar út fyrr en eftir á, þ.e. ef skatturinn af þeim er ekki borgaður fyrr en eftir ár. Með fyrirkomulaginu sem við erum með núna njóta ríki og sveitarfélög í raun hlutdeildar í þeirri ávöxtun sem verður af sjóðunum þegar greiðslurnar koma út en myndu væntanlega ekki gera það í sama mæli, eða myndu ekki gera það, ef þetta fyrirkomulag yrði tekið upp. Með kerfinu eins og við erum með það núna fá ríki og sveitarfélög skatttekjur af þessum greiðslum þegar þeir sem þurfa þjónustuna greiða skatta af sínum lífeyrisgreiðslum. Það er að mörgu leyti, finnst mér, svona til framtíðar litið, miklu eðlilegra fyrirkomulag.

En ég ætla að biðja hv. þingmenn að taka ekki endilega bara mark á því sem ég segi, heldur ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr umsögn sem barst vegna þessa máls þegar það var lagt fram síðast. (Gripið fram í.) Alþýðusamband Íslands lýsir því í fyrsta lagi yfir, í umsögn sinni frá því í fyrra, að það sé alfarið á móti hugmyndum um að fara þessa leið og síðan segir:

„Með skattlagningu á inngreiðslur í lífeyrissjóð er skattbyrði flutt á milli kynslóða og vikið frá þeirri meginhugsun lífeyriskerfisins að hver kynslóð standi undir eigin lífeyri og hluta þeirrar þjónustu sem hún nýtur. Breytingin hefði þannig í för með sér að í reynd væri þeim hluta lífeyrissparnaðarins sem nemur sköttum af iðgjöldum breytt úr sjóðsöfnun í gegnumstreymiskerfi. Með hraðri breytingu á aldurssamsetningu þjóða liggur styrkleiki íslenska lífeyriskerfisins í samanburði við aðrar þjóðir ekki síst í því hversu stór hluti lífeyriskerfisins er fjármagnaður í söfnunarsjóðum. Breyting í átt að auknu gegnumstreymi væri því veruleg afturför.“

Áfram segir Alþýðusambandið:

„Ef inngreiðslur í lífeyrissjóði eru skattlagðar í dag munu lífeyrisþegar framtíðarinnar að óbreyttu ekki skila skatttekjum í ríkissjóð. Það þýðir að þeir sem verða á vinnualdri eftir 20–40 ár munu þurfa að standa undir kostnaði við þjónustu sífellt stækkandi hóps ellilífeyrisþega með hærri skattbyrði sem nemur þeim skattgreiðslum sem verða teknar út núna.

Skattlagning inngreiðslna í lífeyrissjóði mun skerða lífeyrisréttindi úr lífeyrissjóðunum verulega þar sem lægra hlutfall iðgjaldanna er ávaxtað hjá lífeyrissjóðunum. Það mun aftur leiða til aukinna framtíðarútgjalda í almannatryggingakerfinu þar sem lífeyriskerfið byggir á samspili þessara kerfa. Almannatryggingakerfið er ólíkt sjóðsöfnunarkerfinu, gegnumstreymiskerfi sem fjármagnað er með skatttekjum á hverjum tíma. Aukin framtíðarútgjöld í almannatryggingakerfinu munu því einnig þyngja skattbyrði komandi kynslóða.“

Og áfram segir Alþýðusambandið:

„Fjöldi fólks á vinnualdri á hvern lífeyrisþega fer ört fækkandi. Í dag eru um sex vinnandi á hvern eftirlaunaþega en eftir 25 ár má áætla að hlutfallið verði einn á móti þremur. Núverandi fyrirkomulag tryggir að lífeyrisþegar greiða skatt af sínum eftirlaunum og leggja þannig sitt af mörkum til að fjármagna til að mynda heilbrigðis- og velferðarkerfið. Verði hins vegar búið að taka þennan skatt við inngreiðslu mun vinnandi fólk framtíðarinnar þurfa að bera mun þyngri skattbyrði en ella til að standa undir rekstri ríkissjóðs eða að skerða verður þjónustu verulega.

Miðað við forsendur í greinargerð tillögunnar má ætla að lagt sé til að skattlagning iðgjalda verði utan persónuafsláttar. Það þýðir að líkindum að skattbyrði lægri lífeyrisgreiðslna/iðgjalda hækkar mest en skattur hjá þeim sem hafa háan lífeyrir lækkar frá því sem nú er. Slíkt gengur alfarið gegn hugmyndum um jöfnunarhlutverk skattkerfisins.“

Herra forseti. Það þarf í rauninni ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég held að þessi umsögn Alþýðusambandsins segi býsna margt um það hvað aðferðin sem er lögð til í þessari tillögu er í rauninni skökk miðað við það fyrirkomulag sem við erum með hér á landi. Ég held að það þurfi miklu meiri umræðu og miklu meiri samræður við þá aðila sem hafa hingað til náð samkomulagi um með hvaða hætti eigi að fjármagna íslenska lífeyriskerfið áður en tillaga eins og þessi nær fram að ganga.