151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

178. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að hann spurði að þessu sama þannig að ég hélt að þetta væri þá kannski útrætt á milli okkar. Og þannig er náttúrlega að ég er nú farinn að eldast aðeins eins og á hærum má sjá, þannig að nú ríður á að ég muni hvað ég sagði síðast. Ég er ekki alveg viss um að ég muni það fullkomlega en við skulum sjá hvort ég get ekki tekið tekist á við þetta.

Það er fyrst til að taka að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla var gerð fyrir tíu árum síðan og hefur runnið mikið vatn til sjávar síðan þá. Ég gerði það t.d. að umtalsefni að hér hefur stöðugt fækkað þeim sem telja sig eiga samleið með þjóðkirkjunni með því að vera í þeim söfnuði. Þannig að síðan þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram hefur fækkað um þúsundir í þjóðkirkjunni. Það kann að hafa áhrif á skoðanir fólks. Þá ber líka að geta þess, þó að það sé kannski svona fulldjarft að tala þannig úr þessum stól hér, miðað við samanburð við þjóðkirkjuna, að samkvæmt nýjustu traustsmælingum þá treysta 32% þjóðarinnar Alþingi, en 31% þjóðkirkjunni.

Ég veit ekki hvort það er sanngjarnt að setja það í þetta samhengi, en ég svara þessu þannig að þetta mál er af þeim toga (Forseti hringir.) að það sé ekkert athugavert við að flytja það þrátt fyrir niðurstöður þessarar könnunar sem, eins og hv. þingmaður réttilega bendir á, menn hafa ekki séð ástæðu til þess að virða mjög mikið hingað til.