151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

178. mál
[17:18]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég man svo sem ekki hvort það er eins og síðast. Ég hélt kannski að þetta væri eitthvað sem flutningsmenn hefðu skoðað sérstaklega við samningu tillögunnar og þyrftu kannski ekki að lesa sér til um það núna.

Ég er ekki endilega að spyrja um stöðuna núna í þjóðkirkjunni eða fjölda eða traust — og hvað þá til Alþingis. Ég er einfaldlega að velta fyrir mér afstöðu hv. þingmanns til þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fór fram fyrir rétt rúmum átta árum, ekki tíu. Telur hv. þingmaður — ég gat ekki skilið en hann leiðréttir mig ef ég er að oftúlka og þá biðst ég forláts, það er ekki illa meint — að það sé allt í lagi að taka hana ekki sem heilagan sannleik um það hvernig þjóðin horfir á hlutina? Hv. þingmaður orðaði það einhvern veginn þannig að það væri í lagi núna. Þó að þarna hefði verið spurt um það þá sæi hann ekkert athugavert við að leggja fram mál sem færi gegn niðurstöðunni þar. Ég sé heldur ekkert athugavert við það og tek það fram.

En á það ekki við um allar spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012? Telur hv. þingmaður líka að það eigi þá við um stóru spurninguna um hvort leggja eigi drög að stjórnarskrá á grundvelli nýlegra stjórnarskrárdraga, þ.e. draga stjórnlagaráðs, og allar hinar fimm spurningarnar, fyrir utan spurninguna um þjóðkirkjuna, sem var spurt um samhliða, jafnt vægi atkvæða, umhverfisákvæði, auðlindaákvæði o.s.frv.?

Ég tel að við verðum að vera samkvæm sjálfum okkur. Ef við teljum að þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 sé ekki sú afgerandi leiðarhnoða sem við verðum að fara eftir í einu og öllu er kemur að niðurstöðu hennar, lesist varðandi þjóðkirkjuákvæðið eins og hér er, þá hljóti hún að vera það líka varðandi öll önnur ákvæði. Annars værum við ekki alveg samkvæm sjálfum okkur.