151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

178. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er athyglisverð umræða. Ég held að kjarni málsins hljóti að vera sá að ef við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu um að gera einhverja hluti þá eigi auðvitað að fylgja því. Á hinn bóginn er líka mjög slæmt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur og gera síðan ekkert með niðurstöðuna í fleiri ár. Hefur eitthvað verið gert með niðurstöður þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu t.d. í tíð þessarar ríkisstjórnar? Hefur eitthvað verið gert við þessar niðurstöður? Það held ég ekki. (KÓP: Ég var að spyrja um skoðun þína.) — Já, já, ég veit það, hv. þingmaður. Mín skoðun á þessu máli er alveg skýr. Ég tel að að þessu leyti hafi tímarnir einfaldlega breyst, það sé of langt um liðið. Og það getur í sjálfu sér algerlega gilt um hina þættina líka. Ég tel að það sé afskaplega mikill ljóður á stjórnarfari að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert tiltekið mál, gera síðan ekkert með hana en vera síðan alltaf að herma hana upp á fólk árum saman á eftir. Ég vona að það sé ekki of flókið fyrir hv. þingmann að átta sig á þessu, að það skipti máli hver tímalínan er í þessum málum. Er það ekki? Það hefði ég haldið.