151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

hjúskaparlög.

190. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um — og ég vona að forseti fyrirgefi mér léttúðina — það sem ég hef stundum kallað snöggskilnaði. Það snýst um að í ákveðnum tilvikum verði fólki heimilaður lögskilnaður án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng. Staðan í dag er sú að samkvæmt hljóðan hjúskaparlaga er það reglan að fólk sé skilið að borði og sæng í sex mánuði áður en það fær samþykktan lögskilnað hjá sýslumanni. Undantekningartilvikin eru hins vegar algengari. Fólk getur fengið lögskilnað án undangengins skilnaðar að borði og sæng ef um er að ræða hjúskaparbrot eða ef annað hjóna hefur orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti er bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim. Til að hægt sé að láta reyna á þetta undanþáguákvæði þarf að vera sönnun, ýmist í formi játningar eða haldbærra sönnunargagna.

Ég ætla að leyfa mér að segja það, frú forseti, að ég neita að trúa því að þau 55% hjónabanda sem fara beint í lögskilnað vegna þess að annar aðili játar á sig framhjáhald eða ofbeldi séu raunveruleg dæmi um framhjáhald eða ofbeldi. Staðan er einfaldlega þannig þegar hjón ákveða að skilja að eldsneytið í sambandinu er löngu búið og oft langar fólk einfaldlega að losna úr sambandinu sem fyrst, ekki endilega út af einhverju sérstöku heldur bara af því að sambandið er búið. Þá er stundum einfaldast að grípa til þess að játa á sig brot sem hefur ekki átt sér stað, sem hefur engar afleiðingar að játa á sig, eins og hjúskaparbrot. Það fékk ég staðfest frá fjölda fólks sem hafði samband við mig síðast þegar ég mælti fyrir þessu máli sem hafði einmitt gengið í gegnum það að játa á sig brot sem ekki höfðu verið framin til að losna úr sambandi sem var einfaldlega búið, eða sambandi sem engar forsendur voru fyrir lengur. Skýrasta dæmið er, eins og var nefnt í umræðu um málið síðast þegar það var lagt fram, þegar fólk kemur út úr skápnum t.d. og maki viðkomandi er ekki lengur í samræmi við kynhneigð viðkomandi. Í dag er ekkert ákvæði í lögunum sem hjálpar því fólki að komast fyrr úr hjónabandinu en að loknum sex mánaða afplánunartíma í því að vera skilin að borði og sæng.

Til samanburðar getum við skoðað ferlið þegar fólk gengur í hjónaband. Þar þarf ekkert að gera annað en að skila inn vottorðum til sýslumanns sem kannar hjónavígsluskilyrði, kannar hvort fólk sé nógu gamalt, hvort það sé nokkuð í öðru hjónabandi, bara hvort það uppfylli skilyrði þess að ganga í hjónaband. Þegar vel stendur á hjá sýslumannsembættum tekur sú könnun kannski viku og á þeim tíma er hægt að finna tíma fyrir vígslumann að gefa fólk saman. Kerfið þarf því um viku til að ganga frá löggerningum við upphaf hjónabands sem löggjafinn er búinn að teygja upp í sex mánaða ferli við lok þess.

Þetta hefur líka í för með sér óþarfa umsýslu hjá sýslumannsembættum. Ef fólk kemur og fær skilnað að borði og sæng og þarf síðan að koma aftur sex mánuðum síðar, alveg jafn staðráðið í því að hætta að vera gift, hefur sýslumaður þurft að eiga tvisvar við mál sem, verði þetta frumvarp að lögum, sýslumaður þyrfti bara að eiga einu sinni við. Það er hins vegar afskaplega þröng heimild sem við erum að mæla með í frumvarpinu. Hún byggist á því í fyrsta lagi að hjón séu sammála um að leita lögskilnaðar og í öðru lagi að annaðhvort eigi þau hvorki sameiginlegar eignir né börn undir 18 ára aldri eða að þau hafi náð samkomulagi um skipan forsjár fyrir börnum og aðra skilnaðarskilmála. Sem sagt: Ef fólk er sammála og búið að skipta búi og börnum og komið til sýslumanns og segist vilja skilja þá eigi að veita því leyfi til lögskilnaðar án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng.

Í þeim umsögnum sem bárust um málið síðast þegar það var til umfjöllunar er bent á það sem við í þessum sal vitum svo sem öll, að hjúskaparlög þarf að endurskoða að svo ótal mörgu leyti. Sú breyting sem hér er lögð til er bara örlítill hluti af því sem gera þarf. Þannig var t.d. bent á það í umsögn Stígamóta við frumvarpið að það þyrfti jafnvel enn frekar að ná utan um rétt fólks til lögskilnaðar, líka þegar annar aðili hjónabandsins vill ekki skilnað. Í störfum Stígamóta hefur fólk rekið sig á dæmi þess að gerandi ofbeldis geti notað þrönga heimild hjúskaparlaga sér í vil til að lengja skilnaðarferli og nota það þá í raun sem áframhaldandi ofbeldi gagnvart þolanda. Það er klárlega eitthvað sem þarf að taka á en ekki er tekið á í þessu frumvarpi sem er með þrengri fókus. Þá bendir umboðsmaður barna í umsögn sinni á mikilvægi þess að búa betur um börn hjóna sem ganga í gegnum skilnað vegna þess að þó að lögskilnaður marki endapunkt hjónabands þá markar hann upphaf ævarandi samvinnu foreldra um uppeldi barna á tveimur heimilum. Stöðu þessara barna þarf að styrkja og eitt af því sem þarf að gera til að styrkja hana er hreinlega að efla sýslumannsembættin þannig að þau geti unnið hraðar og betur úr málum, þannig að þau geti hjálpað meira við að miðla málum á milli hjóna í skilnaðarferlinu. Þessar athugasemdir, sem komu fram á 148. löggjafarþingi, langar mig að taka heils hugar undir og ég vona að einhver taki upp þau viðfangsefni, þá væntanlega frekar í ráðuneyti en hér á þingi vegna þess að þetta eru stærri atriði og flóknari úrlausnarefni sem taka til fleiri lagabálka en einungis hjúskaparlaga.

En hér erum við með í höndunum frumvarp til laga um breytingar á hjúskaparlögum þar sem hjón eru sammála um að skilja og í þeim tilvikum er málið ósköp einfalt: Treystum við ekki fullorðnu fólki til að vita sjálft hvort það vill hætta að vera saman eða ekki? Ég segi: Treystum því.