Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

greinargerð ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var á þessum forsætisnefndarfundi þegar ákveðið var að birta skýrsluna um Lindarhvol. Við vissum að það átti eftir að berast svar en ákvörðunin var tekin á þann hátt að hvert sem svarið væri, hvert sem innihaldið væri í þessu skjali sem verið var að bíða eftir, ætti samt að birta skýrsluna. Það var ákvörðunin sem var tekin í forsætisnefnd af því þá var búið að fara í alla þessa hringi, tvisvar, þrisvar, ég veit ekki hversu oft. Það var búið að fá sama svarið aftur og aftur. Það var búið að fá sömu rökin aftur og aftur og þau stóðust aldrei neina skoðun sem mælti gegn því að birta þessa skýrslu bara þá þegar. En allt í lagi, bíðum eftir þessu skjali. Birtum það svo til þess að öll gögn fylgi með. En síðan þá hefur ekkert gerst. Þannig að ég kalla aftur á forseta að fylgja því sem þar var samþykkt, þrátt fyrir að við vitum að í forsætisnefnd er í rauninni bara eitt atkvæði og það er atkvæði forseta. En ef hann ætlar að fara í gegn öllum sem greiddu atkvæði þá spyr maður sig: Er það forseti allra þingmanna sem situr þarna?