Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

greinargerð ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:08]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti verður að geta þess að í þessu máli hafa komið fram sjónarmið sem rekast á: Annars vegar að um sé að ræða skjal sem unnið hafi verið meðan á málsmeðferð Ríkisendurskoðunar stóð en hafi ekki falið í sér endanlega skýrslu Ríkisendurskoðunar og þar með eigi við ákvæði 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun sem felur í sér sérstaka þagnarskyldu. Hins vegar hafa komið fram sjónarmið um að hér sé um að ræða skjal sem eigi fremur heima undir almennum reglum upplýsingalaga. Það er um það sem ágreiningur hefur verið í forsætisnefnd.

Þess ber hins vegar að geta að endanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um málefni Lindarhvols kom út, var afhent þinginu og varð opinber í maí 2020. Var hún þá send til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjallaði töluvert um hana á síðasta kjörtímabili en lauk ekki umfjöllun. Núverandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd getur hvenær sem er tekið það mál upp og fjallað um hana eftir þeim aðferðum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur til slíkrar málsmeðferðar.