153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Manni er nú hressilega misboðið hvernig öllu er snúið á hvolf í umræðu um mál sem hefur fengið verulegan tíma í þingstörfum þessa vetrar og sömuleiðis hefur verulega verið komið til móts við sjónarmið minni hlutans um að fresta umræðu og bíða og sjá til o.s.frv. Það er ekki bara á þessu þingi heldur líka á fyrri þingum þar sem málið hefur strandað ítrekað, efnislega sama mál, vegna þess að minni hlutinn hefur ekki getað þolað það fyrir sitt leyti, þrátt fyrir að vera einmitt hér í minni hluta á þinginu alltaf að slá um sig með lýðræðishugtökum, að Alþingi leyfði meirihlutavilja þingsins að koma fram. Þetta sama fólk telur sig þess umkomið að skipa fólki að koma í umræðuna hér á þingi eins og það eigi að lúta fyrirmælum Pírata eða annarra þingflokka um það hvort það tekur þátt í umræðunni. Mér er gjörsamlega misboðið hvernig þeir sem eru ekki í neinu öðru en margra daga málþófi í þinginu þykjast geta talað til annarra þingmanna um það hvernig þingstörfin eigi að fara fram.