153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:42]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Undanfarið hef ég verið að benda á hvernig einstaklingar og sveitarfélög koma í veg fyrir uppbyggingu mikilvægra innviða. Það er að verða sérstakt vandamál á Íslandi hvernig komið er í veg fyrir uppbyggingu á samgöngum og flutning á raforku. Á toppi umræðunnar er Alþingi sem kemur sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut og virðist alveg úrræðalaust þegar kemur að því að taka mikilvægar ákvarðanir. Ég er sannfærður um að við erum að reima á okkur krummafót í orkuskiptum með algjöru aðgerðaleysi. Þingmenn hafa lítinn áhuga á atvinnulífinu og ef einhver umræða er um atvinnulíf þá er það helst gert með því að bregða fæti fyrir verðmætasköpun í þessu landi.

Virðulegur forseti. Af hverju segi ég þetta? Förum bara hringinn í kringum landið. Hvar er næg endurnýtanleg orka í boði? Hvar eru flutningsleiðir í meginflutningskerfi raforku að uppfylla þarfir atvinnulífs og heimila? Ættu þingmenn ekki að vera að ræða þessi mál í þingsal þessa dagana í stað þess að þingið sé tekið í gíslingu Pírata á sama tíma og almannavarnanefnd Vestmannaeyja fundar með Landsneti um nauðsynlega innviði. Í Vestmannaeyjum er allt varaafl nýtt, allar dísilrafstöðvar og fleiri eru á leiðinni til Eyja til að bjarga loðnuvertíðinni eftir að sæstrengurinn VM3, sem er tíu ára gamall, bilaði í fyrradag. Varastrengurinn, VM1, er 61 árs gamall og nær ekki að fæða heimili eða atvinnulíf. VM2 er ónýtur. Fyrir tíu dögum var óskað eftir flýtimeðferð á VM4, sem er á áætlun 2025. Fram undan er umfangsmikil viðgerð. Þessu til viðbótar er engin varavatnsleiðsla til Eyja og það tæki ár, jafnvel mörg ár, að fá nýja leiðslu ef þessi eina bilaði af einhverjum ástæðum. Þá gæti þurft að flytja alla Eyjamenn brott öðru sinni frá árinu 1973. Herjólf er ekki hægt að hafa í Eyjum þegar takmarkað varaafl er í boði. Öryggisleysi mikilvægra innviða sem halda mann- og atvinnulífi í Eyjum gangandi er algerlega óþolandi, eins og víða um land. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Er ekki kominn tími til að meiri tími þingsins fari í að ræða verðmætasköpun og mikilvæga innviði til að standa undir velferð landsins (Forseti hringir.) frekar en gíslataka Pírata á þinginu til að ræða opinber óheft landamæri landsins?