153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[16:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Bráðadeild Landspítalans í desember: Ekki mæta á bráðadeild Landspítalans heldur farðu á heilsugæsluna. Heilsugæslan í desember: Ekki mæta á heilsugæsluna heldur vertu bara heima hjá þér. Í desember vantaði einn þriðja af læknum á bráðadeild Landspítalans og það voru um tvöfalt fleiri inni á deildinni en gert er ráð fyrir. Deildin var of undirmönnuð til að sinna eðlilegum fjölda og hvað þá meira en tvöfalt fleiri sjúklingum. Er einhver hissa á því að fólk hafi verið beðið um að koma ekki á bráðamóttökuna þegar það var dauðans alvara að mæta þangað? Á fimmta tug sjúklinga voru fastir á bráðamóttökunni vegna þess að ekki var hægt að flytja þá á aðrar deildir spítalans því að það var allt fullt. Það vantaði að manna vaktir og þau sem voru á vakt áttu ekki bara að vinna og hlaupa helmingi hraðar heldur allt að þrisvar sinnum hraðar. Þessi vinnubrögð verða til þess að veikt og slasað fólk verður fyrir óbætanlegum skaða, jafnvel ótímabærum dauða. Ekki koma á bráðamóttökuna, var sagt, heldur fara á heilsugæsluna. Já, á heilsugæsluna sem ráðlagði veiku fólki að koma ekki þangað heldur bara halda sig heima og sjúkdómsgreina sig sjálft. Auðvitað, það er allt að átta vikna bið eftir tíma á sumum heilsugæslum og sjúklingurinn orðinn góður af sínum meinum eftir þann tíma — en hvað ef hann er það ekki? Hvað gerir ríkisstjórnin til lausnar á þessu skelfilega ástandi? Ekkert. Hennar lausn er að auka á vandann og það er gert með því að semja ekki við sjúkraþjálfara og auðvitað ekki heldur við sérgreinalækna. Fátækt, veikt fólk hefur ekki lengur efni á því að fara til sjúkraþjálfara og borga aukalega 2.000 kr. fyrir hvert skipti, hvað þá til sérgreinalækna og borga aukalega tugþúsundir króna þar. Heilbrigðisþjónusta á Íslandi í dag er bara fyrir þá efnameiri og þeir sem hafa ekki efni á henni eiga bara að halda sig heima og hvað — lækna sig sjálfir? Biðlistar hafa meira en tvöfaldast á örfáum árum og nú er ekki langt í að 10.000 manns séu á biðlista í heilbrigðiskerfinu eftir lausn sinna veikinda og því miður er engin lausn í sjónmáli á þeim vanda á næstu árum hjá ríkisstjórninni, því er nú verr og miður. Það þarf að byrgja brunninn í heilbrigðiskerfinu strax í dag og sjá til þess að veikt og slasað fólk verði ekki fyrir andlegu og líkamlegu tjóni og hvað þá ótímabærum dauða vegna galla þess en það er ekki í sjónmáli. Það sýna vinnubrögð ríkisstjórnarinnar undanfarin fimm ár.