Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir hið háa Alþingi að líta í eigin barm og horfa til baka. Mig langar því að nota orð prestsins Martins Niemöllers sem ramma í kringum uppflettingu í sögu Alþingis en kvæði hans byrjar á þennan máta:„Fyrst komu þeir og sóttu kommúnistana. Ég sagði ekkert af því að ég var ekki kommúnisti.“ Þann 27. apríl 1941 voru þrír starfsmenn Þjóðviljans, þar á meðal afi minn, Einar Olgeirsson, sem þá var þingmaður Kommúnistaflokksins, handteknir af Bretum og færðir úr landi af bresku herliði. Alþingi kom reyndar saman daginn eftir og mótmælti en ríkisstjórnin sat aðgerðalaus og þingmaðurinn og hinir tveir aðilarnir sátu mánuðum saman í Brixton-fangelsinu í Bretlandi.

Martin Niemöller hélt áfram: „Síðan sóttu þeir gyðingana. Ég sagði ekkert af því að ég var ekki gyðingur.“ Með fyrirmælum um útlendingaeftirlit sem út komu haustið 1937 lokuðu íslensk stjórnvöld landinu svo að hingað kæmust aðeins þeir sem hefðu gilt vegabréf. Með þessum fyrirmælum frá 1937 hafði Hermann Jónasson, forsætis- og dómsmálaráðherra, öll ráð í hendi sér varðandi innflutning gyðingaflóttamanna. Samkvæmt bók Snorra G. Bergssonar, Erlendur landshornalýður, flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi 1853–1940, sóttu samtals 406 gyðingar um landvistarleyfi á Íslandi á árunum 1935–1940. Enginn þeirra fékk leyfi. Alls var 16 gyðingum vísað úr landi á tímabilinu 1936–1939 en 11 aðrar brottvísanir komust á blað en aldrei til framkvæmdar.

Forseti. Martin Niemöller hélt áfram: „Þá komu þeir til að sækja verkamennina, félaga í stéttarfélögum. Ég var ekki í stéttarfélagi.“ Hinn 13. júní 2015 voru sett lög á verkfall hjúkrunarfræðinga og síðan þá hafa þeir aldrei fengið að semja um kaup sín og kjör heldur þurft að sæta niðurstöðum Kjaradóms.

Mig langar sjálfan að bæta einu erindi við ljóð Niemöllers: Þar á eftir sóttu þeir hælisleitendur. Ég sagði ekkert af því að ég var ekki hælisleitandi. Þann 21. október 2022 lagði dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson fram frumvarp sem brýtur í bága við stjórnarskrá landsins og mannréttindasáttmála en hv. þingmönnum stjórnarflokkanna er sama um mannréttindi og stjórnarskrá.

Forseti. Við eigum þá sögu hér á hinu háa Alþingi að hlusta ekki og taka ekki nógu vel á hlutunum, sérstaklega þegar verið er að brjóta á mannréttindum jaðarsettra hópa.

Forseti. Mig langar að enda þessa ræðu á niðurlagi ljóðsins eftir Martin Niemöller, með leyfi forseta: „Loks komu þeir til að sækja mig og enginn varð eftir sem gat sagt neitt.“