Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið í umfjöllun minni um 4. gr. frumvarpsins sem við erum hér að ræða. 4. gr. varðar auknar heimildir lögreglu til að afla heilbrigðisupplýsinga um fólk sem á að vísa úr landi. Líkt og ég nefndi í ræðu minni hér áðan þá get ég alveg skilið að fólki finnist eðlilegt að stjórnvöld hafi ákveðnar heimildir til að afla gagna sem nauðsynleg eru til að flytja fólk úr landi. Það er hins vegar svo að heilsufarsupplýsingar teljast til þess sem kallað er sérstaklega viðkvæmar persónuupplýsingar. Við búum svo vel í okkar samfélagi í dag að hér gilda ákveðin grundvallarréttindi borgaranna sem setja ákveðin takmörk á heimildir stjórnvalda til að afla upplýsinga um okkur í þeim tilgangi t.d. að framfylgja lögum.

Ég ætla að grípa aftur niður í umsögn Rauða krossins á Íslandi um 4. gr. þar sem nokkuð skilmerkilega er farið yfir ástæðuna fyrir því að þau telja 4. gr. frumvarpsins hugsanlega ekki standast stjórnarskrá og þær mannréttindaskuldbindingar sem við höfum undirgengist þó að greinin virðist eðlileg við fyrstu sýn. Líkt og ég nefndi hér áðan virðist greininni við fyrstu sýn hafa verið ætlað að tryggja að stjórnvöld hafi þær heilsufarsupplýsingar sem þeim eru nauðsynlegar til að tryggja að einstaklingur sé í líkamlegu og andlegu ástandi til að ferðast. En svo er ekki. Heimildinni er ætlað að veita stjórnvöldum heimild til að afla t.d. bólusetningarvottorða eða annars sem er skilyrði fyrir því að ferðast og þannig framkvæma þvingunarheimildir sínar gegn vilja viðkomandi og án dómsúrskurðar.

Í umsögn Rauða krossins segir, með leyfi forseta:

„Í 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands (hér eftir stjórnarskráin) segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og í 2. mgr. 71. gr. kemur m.a. fram að ekki megi gera líkamsrannsókn á manni eða rannsókn á skjölum sem skerðir einkalíf hans nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Ákvæði 2. mgr. 71. gr. er sérregla sem tengist einkum rannsóknar- og þvingunarráðstöfunum lögreglu í tengslum við sakamál en í 3. mgr. 71. gr. er hins vegar almenn regla um takmarkanir á friðhelgi einkalífs réttinda sem falla undir ákvæðið. Samkvæmt 3. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt m.a. friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Í 2. mgr. 71. gr. er ekki vísað til tiltekins markmiðs, eins og gert er í 3. mgr. sömu greinar, en markmið takmarkana sem taldar eru í 2. mgr. 71. gr. stefna einkum að því að firra glundroða eða glæpum, er í þágu almannaheilla auk þess sem þær kunna að vera í þágu þjóðaröryggis, án þess að það sé tilgreint í sjálfu stjórnarskrárákvæðinu.

Hefur ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar verið túlkað í framkvæmd með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans á sérhver maður rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í 2. mgr. 8. gr. segir að [o]pinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um“ — ég bið hlustendur um að hlusta vel — „og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.“

Ég læt staðar numið í tilvitnuninni hér til að útskýra það sem var verið að segja. Í stjórnarskránni sem túlkuð er í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland á aðild að og hefur verið lögfestur hér á landi, og almennt er talað um að hann hafi stjórnarskrárígildi — samkvæmt þessum mannréttindasáttmála má ekki skerða rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs nema í tilteknum tilgangi.

Nú er ég fallin á tíma en í ræðu minni hér á eftir mun ég fara yfir það hvernig Rauði krossinn telur tilgang meiri hlutans, tilgang frumvarpshöfunda, með þessu ákvæði ekki samræmast ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Ég óska eftir því við forseta að hann setji mig aftur á mælendaskrá.