Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Nú kunna margir að spyrja sig hvers vegna við erum að eyða svona mikilli orku í þetta mál eins og raun ber vitni en það er vegna þess að það varðar grundvallarmannréttindi fólks. Til að hafa það á hreinu þá eru mannréttindi algild, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir kom inn á áðan, þau gilda um alla innan íslenskrar lögsögu. Það er ekki þannig að við Píratar séum bara að berjast fyrir mannréttindum fólks á flótta. Við tökum slaginn í hvert skipti sem við teljum mannréttindum ógnað af framkvæmdarvaldinu, af löggjafarvaldinu, af hverjum sem er, öðrum öflum í samfélaginu. Við höfum tekið slag eftir slag eftir slag vegna þess að það er grunnstefna okkar að standa vörð um mannréttindi, um borgaraleg réttindi. Þetta er okkar helsta markmið í stjórnmálum; að efla og vernda borgararéttindi. Þetta er það sem leiðir okkur áfram í baráttunni fyrir afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta vímuefna, það eru mannréttindi vímuefnanotenda sem eru að baki því. Þegar við köllum eftir og berjumst fyrir sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu er það vegna þess að það ver borgararéttindi fólks í landinu. Þegar við berjumst fyrir heildarendurskoðun á lögræðislögum er það til þess að styrkja og vernda réttindi fólks með geðraskanir, með geðsjúkdóma, með geðfötlun. Þegar við börðumst í Landsréttarmálinu gegn pólitískri skipan dómara þá var það til að standa vörð um réttarríkið og til að standa vörð um rétt okkar allra til sanngjarnra réttarhalda fyrir dómstólum sem eru skipaðir samkvæmt lögum. Þegar við börðumst gegn afturvirkri lagasetningu sem skerti réttindi lífeyrisþega var það vegna þeirra mannréttinda að ekki megi setja afturvirk lög sem skerða réttindi afturvirkt. Það er bannað, það eru mannréttindi. Þegar við lögðumst gegn því að þvinga fólk í að vera á sóttvarnahóteli í ákveðið marga daga eftir komu til Íslands í miðju Covid var það til þess að standa vörð um mannréttindi, vegna þess að ekki var lagaheimild fyrir þeirri frelsissviptingu. Við andmæltum því, þó að það væri ekki vinsælt á þeim tíma að andmæla því, vegna þess það er í erfðaefni okkar að standa vörð um mannréttindi. Þegar við veittum hæstv. fjármálaráðherra aðhald vegna afskipta hans af ráðningu í ritstjórn fræðirits um efnahagsmál, vegna þess að fræðimaðurinn sem átti að ráða í ritstjórnina var honum ekki að skapi, þá var það vegna þess að það eru til mannréttinda í landinu sem tala um akademískt frelsi og tjáningarfrelsi, að það eigi ekki að refsa fólki fyrir skoðanir sínar og það eigi sér í lagi ekki að refsa fræðimönnum fyrir skoðanir sínar og vinna gegn frama þeirra vegna þess að þeir hafa ekki skoðanir sem stjórnvöldum eru þóknanlegar. Þegar við börðumst fyrir afnámi trans skattsins var það líka vegna þess að það er í erfðaefninu okkar að berjast fyrir mannréttindum, sér í lagi og sérstaklega mannréttindum jaðarhópa. Þegar við brugðumst við lögbanni á Stundina korter í kosningar 2017, bæði með því að halda opna fundi og síðan með því að leggja fram lagafrumvarp til að laga þá fáránlegu stöðu að hægt væri að setja lögbann á fjölmiðil sem var að fjalla um málefni tengd fjármálum þáverandi forsætisráðherra rétt fyrir kosningar, þá var það út af tjáningarfrelsinu og varðstöðu okkar um það sem við börðumst fyrir því. Þegar við andmælum því að blaðamenn (Forseti hringir.) hafi hér réttarstöðu sakbornings fyrir að flytja fréttir er það vegna þess að okkur er annt um tjáningarfrelsi og mannréttindi fólks á Íslandi. (Forseti hringir.) Mannréttindi eru algild, virðulegi forseti, og við berjumst fyrir mannréttindum allra, líka mannréttindum flóttafólks.