Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Við erum hér að ræða um hið sívinsæla ákvæði 6. gr. frumvarpsins, um niðurfellingu réttinda 30 dögum eftir lokaniðurstöðu, neikvæða á stjórnsýslustigi, jákvæða svo sem reyndar líka en þá er það í lagi, þá er fólk komið með dvalar- og atvinnuleyfi og allt í góðu. En hver eru þessi réttindi? Kveðið er á um þessi réttindi í 33. gr. núgildandi laga og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Umsækjanda um alþjóðlega vernd skal standa til boða: a. húsnæði, b. framfærsla, c. nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana og geðfötlunar. Sérstakt tillit skal tekið til þeirra sem hafa sérþarfir eða þurfa sérstaka aðstoð. Barnshafandi konur skulu fá aðgang að mæðravernd og fæðingarhjálp.“

Ég læt staðar numið hérna í upptalningunni þar sem það er ýmislegt annað talið upp í ákvæðinu sem ég er ekki viss um að skipti endilega máli. Ég ætla þó að fara yfir eina málsgrein, 8. mgr. 33. gr., sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fyrir utan nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, sbr. c-lið 1. mgr., skulu úrræði skv. 1. mgr. að jafnaði ekki veitt ef viðkomandi umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur nægileg fjárráð til þess að bera kostnað af þeim sjálfur. Útlendingi sem veitt hefur verið bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. skal þó áfram tryggður réttur skv. 1. mgr. í hæfilegan tíma til að verða sér úti um húsnæði og afla sér nægilegra tekna með tilliti til aðstæðna. Ef í ljós kemur að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafði ekki þörf fyrir þá þjónustu sem veitt var getur [stjórnvald sem fer með þjónustu samkvæmt þessari grein] krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að fullu eða nokkru leyti.“

Það er síðan til reglugerðarheimild sem útfærir þetta nánar og bara svona til að nefna varðandi húsnæðið þá er algengt að fólk deili húsnæði með öðrum, jafnvel herbergi með einhverjum öðrum, og í rauninni er þetta bara þak yfir höfuðið og algjör lágmarksréttindi. Mér skildist á málþinginu í dag að búið sé að hækka 8.000 kr. sem fólk fékk á viku upp í 10.400 kr. á viku. Heilbrigðisþjónusta sem veitt er er afar takmörkuð. Hún er það sem kallað er nauðsynleg heilbrigðisþjónusta og það er túlkað mjög þröngt vegna þess að ef íslenskur ríkisborgari myndi sækist eftir henni væri hún greidd af Sjúkratryggingum en í þessu tilviki skal hún greidd af Útlendingastofnun og það er Útlendingastofnunar í rauninni að taka ákvörðun um það hvort heilbrigðisþjónusta sé nauðsynleg eða ekki. Þetta er metið í hverju tilviki fyrir sig en við heyrðum sláandi dæmi t.d. í dag um að einstaklingum sé til að mynda neitað um meðferð vegna nýrnasteina og annars slíks þar sem það er ekki talið ógna lífi fólks, þótt það sé gríðarlega sársaukafullt. Hið sama á við um tannviðgerðir og tannhirðu og annað. Þá er það almennt þannig, að mér skilst, að ef þú ert með tannpínu er tönnin dregið úr, þú átt ekki rétt á því að það sé gert við hana þar sem það er hægt að draga hana úr og það er mun ódýrara. Þó set ég þann fyrirvara við þetta að það eru nokkur sveitarfélög sem hafa tekið að sér að sinna þessari þjónustu með samningum við ríkið og það er dálítið misjafnt hvaða þjónusta er veitt. Þá hef ég einnig heyrt að stundum veiti læknar og tannlæknar aðstoð á eigin kostnað. Setjum því þann fyrirvara við. En þetta er alla vega sú þjónusta, gríðarlega þjónusta, sem til stendur að taka af fólki vegna þess að einhvern veginn hefur frumvarpshöfundur komist að þeirri niðurstöðu að þessi þjónusta sé ástæðan fyrir því að fólk fer ekki aftur til Írak. Það var hins vegar alveg ljóst, eins og ég sagði, af þessari skýrslu Rauða krossins um aðstæður fólks í þessari umbornu í dvöl — sem ráðuneytið brást harkalega við og sagði að væri engin umborin dvöl heldur ólögmæt dvöl — að þessir einstaklingar eru í mjög erfiðri stöðu en fara samt ekki heim.

Ég sé að ég hef bara verið að endurtaka mig hérna en samt er tíminn búinn. Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.