Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég verð þarna í miðjum klíðum að fara yfir umsögn landlæknis. Þar var síðast talaði um alvarlegar afleiðingar þess að stöðva heilbrigðisþjónustu og einnig segir, með leyfi forseta:

„Það að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi en í Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1979 segir m.a. í 12. gr. um „... rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“.“

Þetta er rosalega skýrt og spurningin sem við höfum hérna er einmitt tengd þeirri grein í frumvarpinu að fella niður réttindi fólks til t.d. heilbrigðisþjónustu eftir 30 daga. Svo kemur einhver langur listi af undanþágum þar sem réttindi falla ekki niður en á móti er síðan ansi langur listi af atriðum sem geta valdið því að fólk sé ekki metið samvinnuþýtt og missi þá þjónustu. Hvernig það verður túlkað gangvart undanþágulistanum þar sem fólk missir ekki þjónustu er frekar óljóst. En allt í lagi, gefum okkur samt að undanþáguatriðin haldi, þá eru samt einhverjir eftir, út undan, sem er aðallega einhleypt fólk, í raun fullfrískt einstætt fólk, en allir geta lent í einhverjum áföllum. Þá tekur við það sem mætti kalla neyð útlendings. Það er þannig í lögum sem sagt að ef einhver erlendur aðili er hérna sem er ekki sjúkratryggður á Íslandi og lendir í ákveðinni neyð þá samkvæmt reglu um félagsþjónustu fær viðkomandi útlendingur greidda húsaleigu og lágmarksframfærslu sveitarfélags sem er mun hærri en er fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þarna gæti umsækjandi um alþjóðlega vernd fengið höfnun, misst réttindi en fengið síðan hærri framfærslu ef viðkomandi lendir í einhverri heilsufarslegri neyð eða neyð samkvæmt þessari reglugerð. Við höfum ekki fengið svar við því hvort þetta eigi við eða ekki þannig að við erum að reyna að spyrja. Nefndarstarfið var ekki búið að okkar mati, svona spurning var t.d. eftir, og það hvernig því er svarað í frumvarpinu er bara óljóst. Það virðist ekki vera jákvætt alla vega miðað við umsögn landlæknis.

Það er einfaldlega ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu því að það getur boðið hættunni heim fyrir aðra, t.d. ef einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem er hugsanlega ekki metin alvarleg við fyrstu sýn. Fólk getur verið að koma frá svæðum þar sem mikið er um átök t.d., fólk getur hafa orðið fyrir ákveðnum áföllum sem það er að glíma við og eitthvað eins og höfnun á umsókn sem viðkomandi telur sig uppfylla að öllu leyti gæti valdið ýmsum neikvæðum áhrifum í slíku heilbrigðisástandi, sem dæmi. Yrði tekið tillit til þess? Er það nógu alvarlegt til að falla innan undanþáguákvæðanna? Yrði það svona eins og þegar trúnaðarlæknir Útlendingastofnunar mat ástand óléttrar albanskrar konu hérna um árið þannig að hún væri fullfrísk og gæti ferðast þrátt fyrir að bæði ljósmæður og læknar hefðu metið að svo væri ekki, að hún ætti ekki að ferðast? Í kjölfarið erum við núna að glíma við skaðabótamál sem hefur fallið konunni í vil vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar. Erum við í þeim aðstæðum þar sem matið á því hvort viðkomandi falli innan undanþáguákvæðanna sé ekki kæranlegt eins og aðrar stjórnsýsluákvarðanir? Það býr til enn meiri pappírsvinnu og vesen og allt þar fram eftir götunum. Það er t.d. dæmi um það hvernig þetta frumvarp er að búa til meiri vinnu og ekki meiri skilvirkni. (Forseti hringir.) Fleiri undanþáguákvæði gera þetta flókið.